140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

lyfjalög.

170. mál
[00:38]
Horfa

Frsm. velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá hv. velferðarnefnd á þskj. 360, það er 170. mál þingsins. Í þessu nefndaráliti er að finna breytingartillögu sem allir hv. nefndarmenn í velferðarnefnd standa að auk þeirrar sem hér stendur, þ.e. Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján L. Möller, Valgerður Bjarnadóttir, Pétur H. Blöndal, Unnur Brá Konráðsdóttir og Guðmundur Steingrímsson en Amal Tamimi var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hér er um að ræða góðkunningja þingmanna. Umdeild breyting, sem var gerð á lyfjalögum 2008 með lögum nr. 97, hefur aldrei komist i framkvæmd. Hún fjallar um að banna skuli apótekum að veita afslátt yfir borðið. Samtök sjúklinga sem til að mynda höfðu náð góðum samningum um afslætti fyrir félagsmenn sína mótmæltu þessu strax og gildistöku ákvæðisins hefur verið frestað fjórum sinnum í eitt ár í senn.

Samkvæmt frumvarpinu sem hv. velferðarnefnd flutti var fyrirhugað að fresta enn gildistökunni en nú um tvö ár, til upphafs árs 2015, en eftir umfjöllun nefndarinnar, viðræður við gesti, umsagnir, sem raktar eru í nefndaráliti, og að fenginni afstöðu velferðarráðuneytis leggur nefndin öll sem fyrr segir til að hið umdeilda ákvæði um bann við afsláttum í apótekum verði numið úr gildi. Frú forseti, það felur í sér að í stað þess að lagt sé til að breyta lögum nr. 97/2008 verði lyfjalögunum sjálfum breytt og leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem fram kemur á umræddu þingskjali 360.