140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 54/2010 um breytingar á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

352. mál
[01:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég leita hér einnig heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og að þessu sinni er það ákvörðun 54/2010, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/38/EB. Hún varðar stofnun evrópsks samstarfsráðs og samþykkt reglna í fyrirtækjum eða fyrirtækjasamstæðum, sem starfa innan bandalagsins, um upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn.

Þessi tilskipun krefst breytinga á lögum nr. 61/1999, um evrópskt samstarfsráð í fyrirtækjum. Hæstv. velferðarráðherra mun leggja fram frumvarp þess efnis síðar á þessu þingi.

Ekki er gert ráð fyrir að efni tilskipunarinnar muni hafa mikil áhrif á starfsemi íslenskra fyrirtækja. Ástæðan er sú að hún gildir einungis um fyrirtæki þar sem fleiri en þúsund starfsmenn starfa.

Ég legg til, frú forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.