140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[10:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er til afgreiðslu við 2. umr. tillaga um aukningu kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við höfum nýverið reynt á það hversu mikilvæg aðild okkar að sjóðnum er og sá stuðningur sem hann getur veitt á ögurstundum. Því er mikilvægt að við tökum áfram fullan þátt í starfsemi sjóðsins og þeim áætlunum sem þar eru uppi um viðbúnað, ekki síst á þeim viðsjárverðu tímum sem nú eru. Ég tel að umfjöllunin í þinginu hafi að mestu eytt þeim efasemdum og áhyggjum sem menn höfðu af málinu og treysti því að það verði fullnaðarafgreitt og gert að lögum í upphafi þings í janúar.