140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[10:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í greinargerð með þessu frumvarpi kom fram að kostnaður hefði verið umtalsvert meiri hjá umboðsmanni skuldara en stjórnvöld höfðu áætlað eða gert sér grein fyrir. Ég hafna þessu algjörlega. Þegar fyrst kom inn tillaga um frumvarp um nauðasamninga um greiðsluaðlögun var einmitt fjallað um kostnaðinn sem mundi liggja að baki hverju máli sem færi í greiðsluaðlögun. Það hefur sýnt sig að þær tölur sem þá lágu fyrir endurspeglast nú í rekstraráætlun umboðsmanns skuldara. Þetta er herkostnaðurinn við það að ekki skyldi hafa verið farið strax í almennar aðgerðir. Við horfumst núna í augu við það að sú ákvörðun stjórnvalda að ýta vandanum á undan sér kostar okkur þennan pening og heimilin mikinn sársauka vegna þeirra tafa sem hafa orðið á úrlausn skuldavandans á Íslandi.