140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

opinberir háskólar.

378. mál
[11:21]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp um opinbera háskóla. Þetta frumvarp er ekki tilefni til neinna gífuryrða eða stóryrða af neinu tagi. Hér er verið að hækka gjöld sem hafa ekki hækkað frá árinu 2005. Á tímabilinu hefur vísitala neysluverðs hækkað um ríflega 50% og hér er eingöngu verið að fara rúmt hálft skref til að leiðrétta þær hækkanir sem hafa orðið á þessu tímabili. Þessi breyting mun færa Háskóla Íslands tekjur upp á ríflega 200 milljónir sem munar verulega um núna þegar nemendum hefur fjölgað sem raun ber vitni. Það er ljóst að hér er á ferð fullkomlega eðlileg og tímabær aðgerð.