140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

opinberir háskólar.

378. mál
[11:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er verið að hækka skrásetningargjöldin í háskólunum. Þessi hækkun nær ekki að halda í við vísitölu neysluverðs. Það er búið að taka tillit til athugasemda stúdentaráðs um að hægt sé að skipta greiðslunum og að öll upphæðin renni til háskólanna. Það var ekki tekið tillit til einnar athugasemdar, þeirrar að hægt yrði að fá lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir skrásetningargjöldunum frekar en er í dag. Það er mjög eðlilegt að við hlúum að háskólunum og að skrásetningargjöldin sem eru sannarlega skrásetningargjöld, það er búið að reikna út hvað er á bak við þetta, hækki. Þau hækka ekki einu sinni eins og vísitala neysluverðs gefur tilefni til.

Öll nefndin er á þessu nefndaráliti, stjórnarandstaðan líka, fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, og að mínu mati er sjálfsagt að styðja þetta mál. Það á að hlúa að háskólunum og stúdentaráð hefur ekki verið með mikinn lúðrablástur út af þessu máli.

Því segi ég já.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á atkvæðaskýringar við 1. gr.)