140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[11:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fimm vikum fyrir áætlað þinghlé kom bréf frá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem farið var fram á tilteknar breytingar á þessari löggjöf. Þetta mál kom inn í þingið hálfum mánuði fyrir áætlað þinghlé.

Það er ýmislegt jákvætt í þessu frumvarpi, sérstaklega eftir breytingar þær sem meiri hluti atvinnuveganefndar hefur kunngert í sérstöku þingskjali. Stóra málið er hins vegar að hér er lagt til enn og aftur, í fjórða sinn, að gefin sé heimild til þess að fresta aðskilnaði í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, eina orkufyrirtækinu í landinu. Það liggur fyrir kæra til Samkeppniseftirlitsins um að þetta fyrirkomulag hafi leitt til þess að Orkuveitan hafi haft möguleika á að misbeita markaðslegri stöðu sinni. Það liggur fyrir að tæknilegur undirbúningur að þessum aðskilnaði er langt kominn. Það hefði verið hægt að ljúka honum. Það sem hins vegar liggur fyrir er að það vantar pólitíska stefnumótun af hálfu fyrirtækisins. Við getum ekki verið í einhverri handlangarastarfsemi af þessu tagi þegar það liggur fyrir að hér er um að ræða sleifarlag af hálfu fyrirtækisins. (Forseti hringir.) Því höfnum við því ákvæði frumvarpsins.