140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mundi gjarnan vilja spyrja í stuttu andsvari hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar nánar út í útfærslu á hækkun á kolefnisgjaldinu gagnvart innanlandsfluginu. Þá á ég bæði við hið innlenda gjald, hinn innlenda skatt, sem ef áformin ganga eftir hefðu getað orðið allt að 50 millj. kr. á næsta ári og eingöngu greitt af Flugfélagi Íslands vegna þess að önnur flugfélög koma þar ekki inn. Hins vegar spyr ég út í útfærslu gagnvart skattinum sem er kallaður ETS-skattur vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Hann mun taka gildi á næsta ári og getur orðið allt að 20 millj. kr. á Flugfélag Íslands. Þarna eru 70 millj. kr. hækkanir ef þessi áform ganga eftir en ég tók eftir því að hv. þingmaður boðar breytingartillögu sem ég vil spyrja örlítið betur út í útfærslu á. Hvað verður innlenda kolefnisgjaldið á næsta ári hátt? Hvað leggur hv. þingmaður til að það verði lækkað mikið eða dregið úr hækkunum og hvað verður gert við ETS-gjaldið sem er, eins og ég segi, 20 milljónir?

Við höfum verið að greiða atkvæði um tillögur til að auka almenningssamgöngur hjá sveitarfélögum og teljum okkur vera að stíga þar rétt skref sem og í samgönguáætlun. Samkomulag hefur verið gert um að bæta allt að 1 milljarði kr. inn í til að auka almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Allt er þetta gott og góðra gjalda vert en við eigum eftir að ræða það betur þegar við ræðum samgönguáætlun. Hér eru í raun og veru almenningssamgöngur sem landsbyggðin treystir mjög á, reyndar ekki bara landsbyggð heldur höfuðborgarsvæðið líka auðvitað, hvað varðar flug til tiltekinna áfangastaða. Ef þessi áform ganga eftir plús 250 millj. kr. hækkun á lendingargjöldum sem boðuð er í samgönguáætlun óttast ég að farmiðaverð, t.d. til Ísafjarðar og Egilsstaða, fari upp í 50–60 þús. kr. fram og til baka. Það er einfaldlega allt of hátt, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Það gengur ekki.) (Gripið fram í: Það bara gengur ekki.)