140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess að okkur er uppálagt að vera stutt í ræðustól og tefja ekki umræður má segja að ég hafi notað þetta andsvar til að fá þetta svar sem ég þakka hv. þingmanni fyrir.

Ég fagna því mjög að ETS-skattinum á innanlandsflugið sem eingöngu hefði lagst á Flugfélag Íslands skuli vera frestað, eins og hér kemur fram, til ársins 2013. Þá höfum við tækifæri við næstu fjárlagagerð til að ræða það og ræða hvað á að gera við ETS-gjaldið. Hvert fer það? Það fer sem tekjur inn í ríkissjóð, en hvað á að gera við peninginn sem frúin í Hamborg gaf, ef svo má segja? (Gripið fram í.)

Hinu atriðinu sem hv. þingmaður nefnir sem breytingartillögu sína fyrir hönd nefndarinnar fagna ég líka mjög, að ekki skuli eiga að hækka þennan kolefnisskatt eins og boðað var í fjárlagagerðinni, þennan innanlandsskatt. Þá stendur eftir það gjald sem flugfélagið hefur verið að greiða á þessu ári sem ég ímynda mér að sé 20–25 millj. kr. Það er yfirdrifið nóg. Við skulum svo sjá til hvort hagur landsins batnar ekki aðeins fyrir næsta ár þannig að við getum fellt það gjald niður við næstu fjárlagagerð.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa tillögu vegna þess að hún er sannarlega skref í rétta átt.