140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Undanfarna daga og mánuði höfum við verið að lesta lífeyrissjóðina með mjög mismunandi hætti og frá mörgum hliðum. Það eru einar fimm leiðir sem átti að fara. Það er búið að taka fjársýsluskattinn burtu þannig að fjórar eru eftir. Það sem lagt er á lífeyrissjóðina kemur bara niður á almennu lífeyrissjóðunum, ekki á þeim opinberu. Það er enn frekar í þá veru sem þessi hæstv. velferðarstjórn vinnur, hún er í rauninni að klekkja á hinum venjulega vinnandi manni í þjóðfélaginu, iðnaðarmanninum, verkamanninum og verslunarmanninum, og lætur sjálfa sig og opinbera starfsmenn í friði.