140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þessar breytingar eru til bóta. Menn eru núna á miklum hlaupum að reyna að sníða allra mestu agnúana af þessu slæma máli. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þær breytingar sem hv. þm. Helgi Hjörvar kynnti, þær eru í örstuttu máli til bóta og í raun ótrúlegt að þær hafi ekki verið í frumvarpinu áður. Þá er ég að vísa til heimildar um að taka þessi gjöld inn í rekstrarkostnað. Þetta eru svo sannarlega ekkert annað en launaskattar sambærilegir við tryggingagjaldið.

Á sama hátt er skynsamlegt að fara yfir málið og kynna sér hvað er að gerast í öðrum löndum, sérstaklega ef menn ætla að veifa því að þetta sé sambærilegt við það sem er að gerast annars staðar í samkeppnislöndunum. Einhvern tímann hefði verið skynsamlegt að hafa það verklag að byrja á því áður en menn samþykktu lögin.

Virðulegi forseti. Þegar menn eru í þessum bútasaumi, að fara yfir og vinna þetta svona, koma ýmsir annmarkar í ljós. Til dæmis var málinu breytt á milli umræðna og hefur verið samþykkt breytingartillaga um að þessi skattur verði ekki lagður á lífeyrissjóðina. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt og við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdum það. Við erum komin með enn nýjan vinkil á málið sem er einfaldlega sá að þá erum við komin með skerta samkeppnisstöðu á milli lífeyrissjóðanna og þeirra aðila sem taka þennan skatt. Eins og menn þekkja hefur það skert samkeppnisstöðu þeirra sem minni eru gagnvart þeim sem stærri eru á íslenskum fjármálamarkaði og gerir nýsköpun afskaplega erfiða. Þetta hefur skekkt samkeppnisstöðu innlendra aðila gagnvart þeim erlendu og mun flytja störf úr landi.

Núna er enn einn vinkillinn kominn á þetta, þ.e. að þetta mun skekkja samkeppnisstöðu fjármálafyrirtækjanna gagnvart lífeyrissjóðunum. Eins og menn þekkja keppa þeir í viðbótarlífeyrissparnaði en jafnvel í almennum lífeyrissparnaði líka.

Ég á ekki von á því að hægt verði að breyta þessu máli í grundvallaratriðum í dag, en ég held að það sé hins vegar rétt að vekja athygli á enn einum hlutnum sem ekki hefur verið hugsað fyrir þegar hæstv. ríkisstjórn fór af stað með þetta mál og mun samþykkja sem lög frá Alþingi seinna í dag.