140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[13:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við getum svo sem rætt um margar aðrar stofnanir sem þurfa fjármagn og ég sé ekki samhengi á milli þess hvort einhver afskipti eru höfð af starfsemi stofnunarinnar, hvort heldur það er Fjármálaeftirlitið eða einhver önnur stofnun, að hún geti skammtað sér tekjustofna og síðan sé flutt frumvarp um að bæta vel í.

Það væri líka hægt að gera það í gegnum fjárlögin. Ef menn teldu að það þyrfti að styrkja viðkomandi stofnun yrði það bara lagt fram í fjárlögunum. Það er hægt að fara endalaust í svona umræður. Samkeppniseftirlitið verður til dæmis bara að láta sér nægja það sem því er skammtað á fjárlögum. Sektir Samkeppniseftirlitsins eru miklu hærri en reksturinn þannig að þá væri eðlilegt að Samkeppniseftirlitið mætti nota þær sektir sem eru innheimtar í ríkissjóð. Sektirnar sem skila sér eru miklu hærri. Í árferðinu núna hefði þurft að skoða það sérstaklega og við gerðum athugasemdir við það í fjárlaganefnd. Svo er hægt að taka umboðsmann Alþingis og við getum farið dýpra í þessa umræðu. Ekki það að það sé minn vilji og ég tel að það sé ekki vilji neins að hafa einhver áhrif á þessar óháðu stofnanir. Þær starfa sjálfstætt en það segir ekki til um hvernig fjárúthlutanir til þeirra eru ákvarðaðar. Það er hægt að gera það í gegnum fjárlögin eins og gera það með einhverjum sérstökum tekjustofnum.

Það er líka annað við þetta, það býr til mismunun þótt í þessu tilfelli sé kannski ekki hægt að færa ákveðin rök fyrir því eins og á milli Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Það kom fram á fundi fjárlaganefndar að Samkeppniseftirlitið er í sömu stöðu og Fjármálaeftirlitið var kannski í fyrir hrunið, þ.e. Samkeppniseftirlitið hefur ekki nægjanlega getu, að eigin mati, eða fjármagn til að staðfesta þær upplýsingar sem fást út úr viðskiptabönkunum og annars staðar. Akkúrat núna er ríkari ástæða til þess að styrkja Samkeppniseftirlitið og líka miðað við fréttirnar (Forseti hringir.) undanfarið.