140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir enn einu nefndaráliti vegna máls sem efnahags- og viðskiptanefnd tekur til lokaafgreiðslu í dag. Þetta mál er stjórnarfrumvarp um breyting á lögum um virðisaukaskatt og laut upphaflega meðal annars að því að afmarka nokkuð betur þær reglur sem gilda um skattalega meðferð listamanna og listaverka en enn fremur að því að framlengja nokkur ívilnandi ákvæði í lögum um virðisaukaskatt sem varða endurgreiðslur á virðisaukaskatti til fólks sem hefur staðið í framkvæmdum við eigið húsnæði, við þá vinnu iðnaðarmanna og er hluti af átakinu Allir vinna, framlengingu á endurgreiðslum vegna virðisaukaskatts á hópbifreiðar og á umhverfisvænar bifreiðar af ýmsu tagi, þ.e. bifreiðar sem nýta aðra orkugjafa en bensín og olíu.

Tvær tillögur komu frá ráðuneytinu við meðferð málsins, önnur varðar uppgjörsmál eftir þann dóm sem féll um fjármögnunarleigusamninga nýverið og kallar á viðbrögð í lagasetningu um virðisaukaskattinn. Hin lýtur að fyrirkomulagi skatteftirlits. Um þá síðarnefndu er það að segja að nefndin taldi að breytingar á skatteftirlitinu væru ekki nægilega vel reifaðar fyrir nefndinni og þyrfti nánari skoðunar við síðar í vetur, en nefndin leggur hér til að hin tillagan sem varðar uppgjörin á fjármögnunarleigusamningunum verði nú gerð að lögum enda mikil áhersla lögð á það af hálfu hagsmunaaðila að hún fái afgreiðslu, hvort sem það yrði núna síðar í dag eða þá í janúarmánuði nk.

Bandalag íslenskra listamanna hafði ekki komið fyrir nefndina og fjallað um þann þátt sem laut að listamönnunum og í ljósi þess að þó að ákvæðin séu að ýmsu leyti ágæt fyrir listamenn geta þau skapað erfiða aðstöðu fyrir tiltekið handverk. Þarfnast því sá þáttur málsins frekari skoðunar við. Vegna þess að þarna eru nokkrar lagagreinar ívilnandi og mikilvægar, ekki síst til að örva starfsemi hjá iðnaðarmönnum og öðrum þeim sem njóta árangursins af átakinu Allir vinna, er einfaldlega lagt til að ákvæðin sem snúa að listamönnunum verði felld brott nú og hæstv. fjármálaráðherra endurflytji þann þátt málsins á vorþingi.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálits meiri hlutans.