140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[14:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, sem ríkti sem kunnugt er ein í landinu í 18 ár, greiddi inn í B-deildina sem svarar 150 milljörðum í dag. Hér er annar vandi sem er A-deildin sem átti alltaf að vera sjálfbær. Til þess voru sett mjög ákveðin skilyrði í 13. gr. um að stjórn sjóðsins ætti að leggja til á hverju ári að iðgjaldið yrði hækkað ef inneignin dygði ekki. Það hefur ekki verið gert, og það er ekkert sem segir annað en að stjórnin hafi átt að gera þetta.

Hæstv. fjármálaráðherra tilnefnir fjóra af átta stjórnarmönnum. Ég spyr hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem vill svo til að er formaður fjárlaganefndar, hvernig hún geti yfirleitt lagt til að fjárlögin verði afgreidd þegar fyrir liggur að hækkun iðgjalda mundi þýða 4 milljarða í aukin gjöld ríkissjóðs í iðgjöld eða 50 milljarða ef þetta skuldabréf yrði gefið út. Hvernig getur hv. þingmaður lagt þetta til, samþykkt fjárlögin, þótt hún viti að það vantar annaðhvort 4 milljarða í gjöld eða 50 milljarða til að gangast inn á skuldbindinguna?

Það er greinilegt að nú þegar, stuttu eftir samþykkt fjárlaga, hefur komið í ljós að þau eru á margan hátt vitlaus, þar á meðal í þessu atriði. Hér hefur verið nefndur Sparisjóður Keflavíkur og sitthvað fleira, það eru heilmargar skuldbindingar sem á eftir að gera upp og ég spyr hv. þingmann, formann fjárlaganefndar, hvernig hún geti yfirleitt samþykkt fjárlögin eins og gert var um daginn.