140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ábyrgð þingmanna í þessum sal, ekki síst stjórnarliða, að tryggja að tekið verði á þessum vanda. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hóf með stöðugleikasáttmála þá vinnu að leggja fram tillögur í þeim efnum. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál launafólks og ég fór yfir það að samkvæmt laganna hljóðan kynni að vera eðlilegt að hækka þessi iðgjöld en jafnframt hefur verið bent á, mjög alvarlegar ábendingar, að það eyðileggi þá vinnu sem er í gangi til að jafna lífeyrisréttindi í landinu.

Ég er samþykk þessari tillögu í ljósi þess að ég lít á þetta sem mikið hagsmunamál, ekki bara fyrir ríkissjóð heldur líka fyrir launafólk og lífeyrisréttindi þess. Það er mjög mikilvægt í ljósi þeirrar vinnu sem er í gangi að það verði hægt að finna leiðir til að vinna okkur út úr þessum vanda í sátt þeirra aðila sem hagsmuni eiga í málinu. Við það stend ég.