140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem er reyndar tengt öðru máli sem var rætt á undan og fjallar um að hækka sveigjuna í því hvernig tryggingaleg staða sjóðsins má vera á hverjum tíma.

Í því frumvarpi sem reyndar var fjallað um áðan er gert ráð fyrir því að það trappi niður á næstu tveimur árum. Mig langar aðeins að blanda mér inn í þau orðaskipti sem áttu sér stað áðan. Meiri hlutinn leggur hér til að þessu verði slegið á frest. Við sem stöndum að minnihlutaálitinu, ásamt þeim sem hér stendur eru það hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og hv. þm. Illugi Gunnarsson, segjum að í raun sé ekki verið að horfast í augu við vandann.

Það hefur verið viðurkennt að hluti af launakjörum ríkisstarfsmanna sé lífeyrisréttindi, þ.e. ríkisstarfsmenn halda því fram, og ég ætla ekkert að deila um það hér, að þeir hafi verið með lægri laun en betri lífeyrisréttindi. Þegar svona leiðir eru farnar, að fresta því að greiða inn í lífeyrissjóðinn, hlýtur að vera eðlileg vangavelta hvort þá sé ekki verið að fresta hluta af launagreiðslunum sem slíkum. Þá gætum við sett þetta í víðara samhengi. Menn geta farið í umræðu um það hvernig hægt væri að taka hluta af laununum, hvaða nafni sem þau nefnast, hvort sem það væru lífeyrisréttindi, orlof eða annað, og henda inn í framtíðina. Það er hægt að fara dálítið djúpt í þá umræðu út frá þessum grunni af því að talað er eins og að þetta sé hluti af launakjörum.

Ástæða þess að þetta mál er komið hingað er náttúrlega sú að tryggingaleg staða A-deildarinnar er komin undir það sem hún á að vera. Þess vegna er þessi leið farin og það kemur mjög skýrt fram. Grunnurinn að þessu máli er eflaust þær ábendingar sem komu frá Fjármálaeftirlitinu sem benti á fjórar leiðir. Ég ætla bara að staldra við tvær þeirra, annars vegar þá sem er farin hér með því að hækka vikmörkin og hins vegar þá að skerða réttindi. Í því felst, eins og kom fram í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að skuldbindingin er um 51 milljarður eins og kom fram á fundum hv. fjárlaganefndar. Þar af eru 4 milljarðar fallnir nú þegar og 47 milljarðar inn í framtíðina ef ekki verða breytingar á lífeyrisréttindum þeirra sem þar eru. Það er akkúrat það sem kemur fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins og þar er bent á að ekki sé ríkisábyrgð á A-deildinni, að það sé hægt að bregðast við. Það er mjög skýr skylda stjórnar að leggja til hækkun á iðgjaldi, ellegar er hægt að fara þá leið sem kom fram í nefndinni, að hækka eftirlaunaaldurinn úr 65 í 67. Þá tekur það megnið af þeirri lífeyrisskuldbindingu sem er til framtíðar af þessum 47 milljörðum. Fjármálaeftirlitið bendir í áliti sínu á að það sé verið að ganga á hlut sjóðfélaga ef ekki verður brugðist við, heldur verði núverandi aðilum sem fá út úr sjóðnum greitt meira. Þá er miðað við að verið sé að skerða framtíðargreiðslur þeirra sem eru í sjóðnum. Þá kemur tvennt til greina, annars vegar að hækka aldurinn eða hækka iðgjaldið.

Okkur barst inn á fund nefndarinnar bréf sem Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, hafði borist frá hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Það er fjármálaráðherra bæði ljúft og skylt að árétta að af hans hálfu hefur aldrei verið gert ráð fyrir því að áunnin lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna verði sérstaklega skert, eða þeim breytt á einhvern hátt án þess að um slíkar breytingar sé viðhaft fullt samráð við heildarsamtökin. Fjármálaráðherra er fullkomlega meðvitaður um tilurð og sérstöðu lífeyriskerfis opinberra starfsmanna …“

Síðan er vitnað í þá vinnu sem er núna verið að vinna og ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst þetta eitt af þeim vandamálum sem alltaf er verið að henda inn í framtíðina. Þess vegna er það niðurstaða okkar í minni hlutanum að leggja til að inn í lífeyrissjóðinn verði strax á árinu 2012 greiddur í kringum 1 milljarður sem er þá hlutur ríkisins, annaðhvort beint frá ríkissjóði eða stofnunum sem undir hann heyra. Það eru í kringum 80% af því framlagi sem þyrfti að vera. Þannig mundu menn horfast í augu við vandann, taka á honum og gera eitthvað í honum.

Eins og komið hefur fram er vandamál opinberu lífeyrissjóðanna gígantískt. Í fyrsta lagi erum við með B-deildina sem er upp undir 400 milljarðar og svo erum við með A-deildina sem er komin í 51 milljarð ef ekkert verður gert í að taka á þeim vandamálum.

Það kemur fram í umsögn Fjármálaeftirlitsins að það sé alveg skýr lagaleg skylda stjórnarinnar að leggja til hækkun á iðgjaldi til að A-deildin verði sjálfbær. Upphaflega markmiðið með stofnun A-deildarinnar var að segja: Nú er ókleift fjallið sem er komið út af B-deildinni, þ.e. frestun greiðslna inn í B-deildina með því að hafa ríkisábyrgð á starfsmönnum lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna, reyndar bara sumra, ekki allra. Þá ætluðu menn aðeins að staldra við og taka á því og það var að sjálfsögðu hugsunin með A-deildinni, hún átti alla tíð að vera sjálfbær. Þess vegna ætluðu menn að greiða niður lífeyrisskuldbindingarnar í B-deildinni á einhverjum árum eða áratugum til þess að spyrna við fótum en því miður hefur það haldið áfram að hlaðast upp. Þó að ákveðin vikmörk séu eðlileg þannig að menn breyti ekki á hverju einasta ári um einhverjar prósentur, að það sé eitthvert svigrúm, er það rétt eins og hefur komið fram að alveg frá því á árinu 2000 hefur tryggingaleg staða sjóðsins verið neikvæð. Þá verðum við líka að gæta sannmælis í því að til að mynda árið 2006 var hún neikvæð um 0,6%. Árið 2007 var hún -2,4% og við efnahagshrunið, þ.e. árið 2008, varð hún -13% og síðan 2010 -12%. Það gefur augaleið að staða sjóðsins er búin að vera vandamál síðustu þrjú, fjögur árin. Það er mikilvægt að halda því til haga.

Það er líka mikilvægt að það komi fram, af því að það kom fram á fundi nefndarinnar, að skýrt er kveðið á um það í lögum að stjórn sjóðsins eigi að leggja til hækkun á iðgjaldi. Það hefur enginn neitt um það að segja, hvorki hæstv. fjármálaráðherra né framkvæmdarvaldið. Það er bara í lögum um sjóðinn. Það kom fram frá fulltrúum launþega á fundi nefndarinnar að fulltrúar þeirra í stjórninni létu kanna lögfræðilega stöðu sína sem einstaklinga, hver væri í raun og veru ábyrgð þessara einstaklinga að leggja ekki til að iðgjaldið yrði hækkað. Það stendur mjög skýrt í lögunum um sjóðinn. Síðan hafa fulltrúar launþega í stjórn A-deildarinnar í tvígang lagt til hækkun á iðgjaldi. Í bæði skiptin hefur það fallið á jöfnu þannig að ég álykta sem svo, án þess að fullyrða það, að það hefðu að sjálfsögðu verið eðlileg viðbrögð frá þeim fulltrúum sem sátu í stjórn sjóðsins fyrir hönd launþeganna að líta svo á að þeim væri skylt að leggja fram þessa tillögu. Ef hún yrði ekki samþykkt væru þeir að minnsta kosti búnir að setja stein undir að þeir teldu það brýnt og væru þar með að uppfylla lagalega skyldu sína sem stjórnarmenn í lífeyrissjóðnum með því að leggja fram þessa iðgjaldshækkun. Þetta var gert bæði 2010 og aftur núna síðast 28. september 2011. Í þeirri fundargerð kemur fram að þá viti menn að til standi að bregðast við þessu bréfi Fjármálaeftirlitsins og athugasemdum með því að leggja fram það frumvarp sem við erum að fjalla um í dag, þ.e. að fresta vandanum.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, og ætla svo sem ekki að lengja frekar umræðuna um þetta mál, er hægt að ræða þetta mjög djúpt. Ef lífeyrisréttindin sem ég held að ekki sé mikið deilt um eru hluti af launakjörum ríkisstarfsmanna er verið að fresta til framtíðar launagreiðslunum sem á að borga fyrir störfin sem unnin eru í dag. Það tel ég, virðulegi forseti, óásættanlegt og eins líka í ljósi þeirrar stöðu sem B-deildin er í og þeirra ærnu verkefna sem þar eru fyrir hendi.

Það kom fram á fundi nefndarinnar að búið er að skipa nefnd til að fara yfir stöðu mála. Hún hefur reyndar ekki fundað síðan í janúar af því að menn höfðu mismunandi skilning á jöfnun lífeyrisréttinda. Síðan væri það þá opinberra starfsmanna að fjalla um stöðu sína og sjóð. Þar hefur reyndar verið starfandi undirhópur sem hefur eitthvað fundað en ég þekki ekki nákvæmlega til þess hvernig það er. Ég álykta sem svo að það sé aldrei horfst í augu við vandamálin. Þeim er alltaf frestað inn í framtíðina. Þetta er eitthvað sem við gerum seinna. Ég tek undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni fjárlaganefndar, að í þeirri vinnu sem við förum í um miðjan janúar er brýnt að fara yfir skýrsluna um lífeyrisskuldbindingarnar sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt fyrir hv. fjárlaganefnd að átta sig á því hvað er búið að taka mikið af framtíðartekjum inn í reksturinn í dag og búið að henda miklu af skuldbindingum inn í framtíðina. Það er hægt að fara í upptalningu á því, 3,6 milljarðar í skatta á stóriðjufyrirtæki sem á að byrja að borga til baka 2013. Ég tel mjög mikilvægt að menn hafi heildaryfirsýn yfir þetta í hv. fjárlaganefnd til að átta sig á þeirri stöðu sem getur komið upp í framtíðinni. Þegar menn taka milljarða og jafnvel milljarðatugi af framtíðartekjum og fresta kostnaði sem klárlega er fyrir hendi er okkur vandi á höndum. Það er orðið mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd fari yfir þessa stöðu.

Síðan er niðurstaða okkar, hv. þingmanna sem stöndum að þessu minnihlutanefndaráliti í hv. fjárlaganefnd sem eru ásamt mér hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Illugi Gunnarsson, sú að við leggjum til að farin verði sú leið að greiða um 900 milljónir. Þær yrðu settar inn á næsta ári, það yrði reynt að greiða þetta niður og síðan farið í að skoða þetta til að hafa þá einhverjar þumalskrúfur og horfast í augu við vandann. Þess vegna leggjumst við gegn því að frumvarpið verði samþykkt í óbreyttri mynd.