140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[15:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Það er vitnað töluvert í umsögn fjárlagaskrifstofunnar í þessu nefndaráliti sem hann hafði framsögu um. Að mínu viti gengur ekki að greiða ákveðna endurgreiðslu, um 20%, og þá er ég ekkert að leggja mat á það hvort tekjur ríkissjóðs hafi verið komnar inn eða ekki. Hv. þingmaður tók ágætt dæmi í ræðu sinni og vitnaði til ákveðins verkefnis en ég spyr hvort nefndin hafi ekki skoðað það að hafa bara skattalega hvata í þessu. Tekjur af þeim sem framleiða kvikmyndir áttu klárlega að vera meiri en endurgreiðslurnar hljóðuðu upp á, eins og hv. þingmaður rakti, og ég spyr hvort hv. atvinnuveganefnd hafi skoðað það sérstaklega að færa þetta yfir í það að fyrirtækin fengju þá skattalega afslætti eins og til að mynda í verkefninu Allir vinna sem við þekkjum. Þá erum við með gegnumstreymi í ríkissjóð og þetta byggist á því að menn telji eðlilegt að styðja við þessa atvinnugrein sem skili auknum tekjum. Ég ætla ekki að taka þá umræðu hér. Hins vegar væri auðveldara að halda utan um útgjöld ríkissjóðs sem er mjög mikilvægt. Eins og þetta er uppsett í dag er það algerlega glórulaust. Þetta gengur þvert gegn því sem búið er að ræða í þinginu og ef þingið samþykkir svona frumvarp velti ég fyrir mér hvað sé í raun verið að segja við hv. fjárlaganefnd sem stóð að því heils hugar á septemberþinginu, allir sem einn í fjárlaganefnd, að leggja til breytt vinnubrögð, skilaði samantekt og gerði kröfur um ákveðnar breytingar. Svo er eitt af fyrstu verkunum að fara í þveröfuga átt við það sem búið er að benda á.

Það er líka mjög athyglisvert að lesa um áhrif á stjórn ríkisfjármála sem kemur fram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Að mati meiri hlutans mætti halda því fram að endurgreiðsluskuldbindingar falli ekki til án fyrirvara (Forseti hringir.) og þær eigi því ekki að skapa algera óvissu um stöðu ríkisfjármála.“