140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin sem við stóðum frammi fyrir var í raun og veru þessi: Viljum við laða til landsins erlend kvikmyndaverkefni? Samkeppnisumhverfi þessarar greinar er með þeim hætti að velflest lönd bjóða einhvers konar endurgreiðslu af þeim fjármunum sem hið erlenda verkefni færir inn í hagkerfið. Þegar við höfðum svarað spurningunni með: Já, við viljum laða til landsins erlend kvikmyndaverkefni, áttuðum við okkur snemma á því að við gætum ekki aðgreint erlend verkefni og önnur sem eru af innlendum meiði. Vegna þess að sá heimur er með þeim hætti sem ég hef áður lýst verðum við að hafa kerfið þannig uppbyggt að 20% af þeim kostnaði sem fellur til á landinu og er greiddur til innlendra aðila, ekki til þeirra erlendu aðila sem koma með verkefnin heldur einungis til íslenskra fyrirtækja, íslenskra aðila sem gera upp tekjuskatt sinn hér á landi, eru endurgreidd. Því má segja, og það gerðum við með nefndaráliti meiri hlutans: Í raun og veru hefur hið íslenska ríki ekki lagt fram neina fjármuni, þ.e. þessi 20%, fyrr en 100% eru komin inn í íslenska hagkerfið. Eins og ég rakti og kemur fram í nefndarálitinu hafa rannsóknir og kannanir leitt í ljós að ríkið hefur meira upp úr þeim verkefnum en það greiðir út í endurgreiðslu. Erlendu verkefnin koma oft inn með skömmum fyrirvara og því má segja að íslenska ríkið sé búið að taka inn aukatekjurnar áður en það greiðir aftur út hlutfall af þeim. Ef þessi útgjöld eru óvænt eru tekjurnar sömuleiðis óvæntar og þá bætast þær við.