140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og innlegg hans í þessa umræðu, að venju málefnalegt. Að mörgu leyti get ég tekið undir að það væri óskandi að við gætum haft endurgreiðslukerfið sem inn- og útlið í gegnum skattkerfið.

Ef við viljum hins vegar vera samkeppnishæf á hinum alþjóðlega grundvelli verðum við að byggja kerfið svona upp vegna þess að svona er kerfið í samanburðarlöndunum. Þá verðum við að búa við þessa óvissu. Eins og ég rakti, og ég held að sjálfsögðu að þingmaðurinn skilji en ég ætla samt að árétta það, leggjum við í raun ekki óvænt út fjármuni vegna þess að ef árið er skoðað í heild hafa líka tekjur óvænt borist inn. Tekjurnar eru meiri en útgjöldin og þess vegna kemur ríkissjóður út í plús ef kemur til nýrra verkefna sem menn höfðu ekki gert ráð fyrir.

Hvort sem við förum þessa leið eða í gegnum skattkerfið, eins og við gerum til dæmis í verkefninu Allir vinna, eða búum til endurgreiðslukerfi á rannsókna- og þróunarkostnaði hjá nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum, eins og við höfum samþykkt á þessu þingi, held ég að það séu bara önnur dæmi um þá möguleika sem við höfum sem stjórnmálamenn til að styðja við atvinnulífið í landinu. Við tökum kannski peninga út úr ríkissjóði en við teljum að með því að veita skattalegt hagræði, búa til skattalega hvata, séum við að búa til verðmæti fyrir ríkissjóð. Við gerum það stundum til lengri tíma litið, t.d. í gegnum rannsókna- og þróunarkostnað sprotafyrirtækja, en þetta verkefni sem við erum vonandi að gera að lögum í dag er dæmi um verkefni þar sem við sköpum verðmæti fyrir atvinnulífið innan þess fjárlagaramma sem við erum að fjalla um. Ef kemur til óvæntra útgjalda hjá ríkinu hafa sömuleiðis komið inn óvæntar tekjur, eins og fram hefur komið, og þær eru meiri, sterkari og betri en útgjöldin.