140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:56]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur framsögumanni fyrir framsöguna og nefndinni fyrir vinnuna. Ég tek eftir þeim breytingum sem nefndin vill gera á frumvarpinu og tel að þær séu allar til bóta. Ég held að það sé skynsamlegt að stytta gildistímann úr tveimur árum í eitt og taka málið þá til endurmats.

Að því er varðar breytingartillöguna sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir mælir fyrir, um að bæta við fleiri landsvæðum í hæsta styrkflokk, get ég ekki stutt hana vegna þess að hún byggir ekki á efnislegri greiningu sem réttlæti slíkt. Ég veit að það kunna að vera byggðatengd sjónarmið fyrir því að gera eitthvað fyrir sveitarfélög á norðausturhorni landsins en hér hefur engin efnisleg greining farið fram sem réttlæti að þau njóti hlutdeildar í þessum hærri styrkflokki.

Hugmyndin að baki því kerfi sem hér er lagt upp með er sú að einungis verði bættur jaðarkostnaður, þ.e. framleiðslukostnaður sem er umfram það sem eðlilegt er miðað við vegalengdina sem að baki liggur. Ef flutningskostnaður er í samræmi við vegalengdina sem að baki liggur er óheimilt að bæta hann samkvæmt þeim viðmiðum sem lagt er upp með af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA í þeim ríkisstyrkjareglum sem gilda vegna þess að ríkinu er almennt óheimilt að styrkja rekstur fyrirtækja.

Í þeim gögnum sem við höfum séð í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er ekkert sem bendir til að þessi tilteknu sveitarfélög búi við slíka umgjörð flutningskostnaðar að þar sé kostnaðurinn meiri en sem stafar af fjarlægð þeirra frá markaði þannig að það sé ekkert frávik frá línulegum framgangi í kostnaði fyrir hvern kílómetra sem réttlæti að sérstakur styrkur sé veittur. Ég held að það sé mikilvægt þegar við fetum okkur af stað í nýja umgjörð af þessum toga að við byrjum á réttum forsendum. Það er ekki gott til afspurnar ef við byggjum upp nýtt kerfi flutningsjöfnunar og víkjum um leið og við lögfestum það frá þeim efnislegu viðmiðum sem liggja að baki. Þá erum við að feta okkur inn í gamla tegund byggðastefnu sem við ættum að vera búin að læra nóg af þar sem menn útdeila peningum án efnislegra viðmiða. Ég vil ekki standa að slíku.