140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

fjarskipti.

405. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, með síðari breytingum. Flutningsmenn auk þeirrar sem hér stendur eru Ólína Þorvarðardóttir, Þuríður Backman, Mörður Árnason, Róbert Marshall og Atli Gíslason.

1. gr. Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Við úthlutun á tíðniréttindum á 791–821 / 832–862 MHz skal fram til 31. desember 2013 taka gjald sem nemur 3.000.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði. Gjaldið miðast við að tíðniréttindin séu gefin út til 15 ára. Sé tíðniréttindum úthlutað til lengri eða skemmri tíma skal greiða hlutfallslega í samræmi við það. Verði réttindum á tíðnisviðinu úthlutað með uppboðsaðferð skal gjald samkvæmt ákvæði þessu skoðast sem lágmarksboð. Gjaldið skal renna til fjarskiptasjóðs.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerð bendir umhverfis- og samgöngunefnd á að það sé nauðsynlegt að kveða á um heimildir til gjaldtöku vegna væntanlegra endurúthlutana á umræddum réttindum, svo og vegna hugsanlegra nýrra úthlutana til nýrra aðila á fjarskiptamarkaði. Nefndin lítur í þessu sambandi til umfjöllunar í skýrslu auðlindanefndar á vegum forsætisráðuneytisins frá árinu 2000 um að eðlilegt sé að endurgjald komi fyrir afnot af hlutum tíðnirófs landsins sem er takmörkuð og sameiginleg auðlind þjóðarinnar.

Það þykir skynsamlegt að tímabinda gjaldtökuheimildina þar sem hún á eingöngu við um þá úthlutun á tíðnisviðinu sem Póst- og fjarskiptastofnun hyggst ráðast í á næstu missirum. Þá þykir einnig skynsamlegt að festa ekki verðgildi þessara réttinda í lög til lengri tíma en til ársloka 2013.

Gert er ráð fyrir að gjöldin renni til fjarskiptasjóðs sem starfar samkvæmt lögum nr. 132/2005 en hlutverk hans er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna sem ætla má að ekki verði ráðist í á markaðsforsendum. Gjaldtaka samkvæmt þessu ákvæði er óháð þeirri aðferð sem verður notuð við að úthluta réttindunum, en um ólíkar aðferðir í þeim efnum er vísað til tíðnistefnu Póst- og fjarskiptastofnunar sem er aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar. Verði ákvörðun tekin um að efna til uppboðs á tíðniréttindunum er hins vegar gert ráð fyrir því að umrætt gjald gildi sem lágmarksboð. Þannig gæti endanlegt gjald fyrir réttindin orðið hærra að afloknu uppboði.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, frú forseti. Það er gerð ítarleg grein fyrir þessu máli öllu í greinargerðinni og með fylgir fylgiskjal og yfirlit yfir gjald fyrir tíðniheimildir þannig að ég vísa til nánari skýringa til þessara gagna og lýk hér með máli mínu.