140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[16:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að framlengja lög um 20% endurgreiðslu vegna kvikmyndaframleiðslu sem fellur til hér á landi, lykilatriði til að viðhalda og styrkja samkeppnisstöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi til að laða að erlend verkefni. Rannsóknir, þar á meðal Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, hafa sýnt að ávinningur ríkisins er meiri en sem nemur endurgreiðslunni. Gagnrýni hefur komið fram á að hér sé einhver óvissa í útgjöldum fyrir ríkið en hafa ber í huga að ef til staðar er óvissa um útgjöld ríkisins er sömuleiðis til staðar óvissa um tekjur. Eins og rannsóknir hafa sýnt fram á eru tekjurnar hærri en sem nemur útgjöldunum þannig að hér er um að ræða beinan ávinning fyrir ríkið.

Þetta er gott dæmi um skattalega hvata sem skapa störf og auka verðmæti. Þess vegna ber að lofa þetta framtak ríkisstjórnarinnar um að framlengja endurgreiðsluheimildir til að styrkja kvikmyndagerð í landinu. [Kliður í þingsal.]