140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[16:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál er staðfesting á því sem hér hefur komið fram, að hvatar í skattkerfinu geta eflt atvinnustarfsemi. Kvikmyndaiðnaður er kannski tiltölulega ung grein og hefur ekki fyrr en á síðustu árum náð ákveðinni fótfestu en það eru vísbendingar um verulega aukningu. Það eru vísbendingar um frekari breytingar vegna aukinnar tækni sem munu leiða til þess að þessi iðnaður geti eflst enn frekar. Það gætu reyndar margar greinar í þessu landi ef þær byggju við almennt gott skattumhverfi. Það er það sem þessi ríkisstjórn þarf að huga að, að hér er pólitísk óvissa sem veldur því að hér er ekki fjárfesting innan lands, ekki hjá innlendum fyrirtækjum, ekki bein erlend fjárfesting frá erlendum aðilum, allt vegna pólitískrar óvissu sem fyrst og fremst ræðst af því hve flókið skattumhverfið er orðið og hversu litlum skattalegum hvötum er beitt til að (Forseti hringir.) efla atvinnustarfsemi á Íslandi. [Kliður í þingsal.]