140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Sú tillaga sem hér hefur orðið nokkuð til umræðu er hluti af heildarsamkomulagi þingflokka um þinglok. Það voru uppi sjónarmið í efnahags- og viðskiptanefnd þess eðlis að á norðausturhorninu, þar sem bæði er langt að sækja og samgöngur sums staðar býsna erfiðar, væru ríkar efnislegar ástæður til að ætla að væri meiri flutningskostnaður en á öðrum svæðum — eins og er um Vestfirði. Það skortir hins vegar sannarlega gögn til að undirbyggja þessa ákvörðun fyllilega. Ég tel þó [Kliður í þingsal.] óhætt að afgreiða tillöguna vegna þess að lögin koma til endurskoðunar þegar að hausti og ef ekki hægt er að styðja þetta fullnægjandi gögnum kemur málið einfaldlega fram í þinginu á nýju ári. Ég hvet þingmenn til að styðja það að norðausturhornið, þar sem menn búa við mestar fjarlægðir frá mörkuðum og lélegar samgöngur, njóti sömu fyrirgreiðslu (Forseti hringir.) og Vestfirðir.