140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar, sagði áðan, mál þetta er hluti af samkomulagi um hvernig við ljúkum þessu þingi. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir gott starf í þessu máli. Um leið kem ég hingað upp til að fylgja eftir þeirri tillögu sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur lagt fram um að ákveðin svæði á norðausturhorni landsins falli undir 20% flutningsjöfnun eins og Vestfirðir gera almennt. Það vill svo til að það er mun lengra á norðausturhorn landsins en til Vestfjarða þannig að þetta er mikið réttlætismál og ég styð það. Um leið býðst ég til að gerast sáttasemjari við þá félaga hjá Samfylkingunni, hæstv. ráðherra Árna Pál Árnason og hv. þm. Kristján L. Möller, en ég þykist viss um að þegar nær dregur jólum muni hæstv. ráðherra sjá ljósið í þessum efnum og fagna því að íbúar á norðausturhorni landsins fái bót gegn flutningskostnaði sem því miður er allt of hár.