140. löggjafarþing — 41. fundur,  17. des. 2011.

þingfrestun.

[17:21]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Ég vil við þetta tækifæri láta í ljós ánægju mína með að okkur hefur tekist að standa að mestu leyti við starfsáætlun Alþingis á þessu haustþingi. Áætlanir um þingstörfin eru mjög mikilvægar, alþingismenn eiga að geta reitt sig á að þær standist enda þurfa þeir að skipuleggja margvísleg önnur verkefni sín bæði á höfuðborgarsvæðinu og í kjördæmum.

Ég er þakklát fyrir það samstarf sem ég hef átt við formenn þingflokka um skipulag þingstarfanna. Það samstarf ræður úrslitum um hvort okkur tekst að haga störfum hér eins og ráðgert er.

Á þessu haustþingi höfum við unnið eftir nýjum þingsköpum. Um þau var góð samstaða í lok vorþings og eru þau mikið framfaraspor. Við framkvæmd þeirra hafa þó, eins og vænta mátti, komið í ljós agnúar. Mun nefnd sem falið var að vinna að frekari endurskoðun þingskapa fara yfir þau atriði. Sú nefnd mun þó fyrst og fremst vinna áfram að því að endurbæta þingsköp og vinnubrögð á Alþingi eins og heitið var við afgreiðslu málsins í vor. Snýr það ekki síst að nýjum samkomudegi Alþingis næsta haust, breytingum á meðferð fjárlagafrumvarps svo og fjárlagaramma að vori og fyrirkomulagi umræðna á Alþingi.

Ég vil við lok haustþings færa þingmönnum, svo og starfsfólki Alþingis, kærar þakkir fyrir gott samstarf á haustþinginu, óska öllu gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar og þakka samstarfið á því ári sem nú er brátt á enda. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.

Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýársóskir.