140. löggjafarþing — 41. fundur,  17. des. 2011.

þingfrestun.

[17:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja hæstv. forseta og varaforsetum þingsins kærar þakkir fyrir samstarfið á þessu haustþingi. Ég þakka einnig forseta fyrir samstarfið við okkur þingflokksformenn sem hefur verið ánægjulegt þótt stundum hafi blásið nokkuð á þeim fundum, en okkur hefur tekist á endanum að ná niðurstöðu sem við getum vonandi öll verið sátt við.

Vinnubrögðin á Alþingi hafa mikið verið til umræðu, nú sem endranær, og víst er, og ég tek undir með hæstv. forseta, að hér má enn margt bæta. Við þurfum öll að leggja okkur fram við það og kannski hafa boðskapinn úr ævintýrinu góða um hana Mjallhvíti og dvergana sjö í huga, að það gengur betur þegar við vinnum saman. [Hlátur í þingsal.]

Ég færi forseta og fjölskyldu hennar góðar kveðjur fyrir hönd okkar alþingismanna. Framúrskarandi starfsfólki Alþingis vil ég líka færa þakkir okkar þingmanna fyrir góð störf, lipurð og fúslega veitta aðstoð.

Ég bið þingmenn að taka undir góðar kveðjur til hæstv. forseta Alþingis og fjölskyldu hennar og þakkir til starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]