140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér störf og stefnu ríkisstjórnarinnar sem nú hefur starfað í nærri þrjú ár frá kosningum. Að mínu mati er þetta ríkisstjórn mikilla vonbrigða. Við úrslit kosninganna vorið 2009 batt ég miklar vonir við það að hér yrði endurreist Ísland og íslenskt samfélag á nýjum grunni sem við hefðum ekki séð áður og yrði öðruvísi en sá grunnur sem leiddi til hrunsins. Því miður, að örfáum atriðum frátöldum, er það ekki raunin heldur er verið að byggja upp sama strúktúrinn með sömu fúaspýtunum sem mun von bráðar leiða til annars hruns ef ekki verður breyting á.

Vissulega hefur sumt verið gert vel af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Síðustu hrókeringar og sameiningar ráðuneyta eru til dæmis af hinu góða og í samræmi við hugðarefni Hreyfingarinnar um að bæta og minnka stjórnsýsluna, en það hefði mátt gera betur. Það hefði mátt fara fram heildarúttekt á allri starfsemi Stjórnarráðsins og allri stjórnsýslunni og það hefði mátt meta upp á nýtt hverjar raunverulegar þarfir 320 þúsund manna samfélags eru fyrir það ríkisbákn sem við búum við í dag. Slík vinna er öll eftir, því miður.

Hagvöxtur upp á 3–4% er að vissu leyti jákvæður en við skulum ekki gleyma því að ör hagvöxtur frá svo djúpum botni sem hagkerfi lendir í eins og það íslenska er ekkert einsdæmi heldur eru þetta mjög algeng villuljós. Það er yfirskot strax í upphafi vaxtar frá djúpri kreppu. Við þurfum því að vera viðbúin því að sá hagvöxtur sem menn gorta sig af hér muni ekki vera marktækur áfram.

Minnkandi atvinnuleysi er af hinu góða en það tekur ekki tillit til brottflutnings fólks og þó að Íslendingum sem slíkum fjölgi er það meira og frekar vegna aukinna barnsfæðinga en að fólk sé að flytjast í stórum stíl til landsins. Það þarf að skilja á milli þeirra talna. Það gerði hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra ekki, ég hef ekki enn tamið mér það tungutak starfstitils hans sem ég gæti farið með hér úr pontu en ég mun æfa mig í því þegar fram líða stundir.

Það er ekki rétt að vísa í tölur um aukinn fólksfjölda sem taka ekki tillit til þess fólks sem hefur flutt úr landi, þess fólks sem samfélagið hefur eytt gríðarlegum fjármunum í að mennta og gera að fagfólki sem við núna missum úr landi og er ekki líklegt að komi aftur.

Uppbygging í atvinnutækifærum hefur verið frekar brösótt. Þær kísilmálmverksmiðjur sem menn hampa svo mjög núna eru einfaldlega gróf hráefnisvinnsla og það hefur verið að heyra á forsvarsmönnum þeirra verksmiðja sem hafa komið fyrir atvinnuveganefnd að þeir muni fyrst um sinn halda sig við þá grófu hráefnisframleiðslu sem slík vinnsla er og það er ekki á teikniborðinu hjá þeim, a.m.k. ekki með neinum formlegum ákveðnum hætti, að fara út í frekari vinnslu á þeim málmi. Við munum því búa áfram við það að vera frumvinnsluþjóð á flestum sviðum.

Eitt sem veldur mér kannski mestum vonbrigðum varðandi störf og stefnu ríkisstjórnarinnar er að ekkert hefur verið gert í þeim brýnu lýðræðismálum sem kallað var svo rækilega eftir í búsáhaldabyltingunni. Ekki hafa verið lögfest lög um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði þjóðarinnar, fyrirbæri sem er mjög brýnt að verði til staðar til að almenningur geti veitt sitjandi ríkisvaldi hverju sinni nauðsynlegt aðhald. Við búum við þá sögu lýðveldisins að kjörnir þingmenn og ríkisstjórnir hafa misfarið með vald sitt um leið og þau eru komin til valda og það er óhæfa eftir 70 ára slíkt fyrirkomulag að ekki skuli enn vera til staðar eitthvert tæki fyrir almenning í landinu til að grípa í taumana.

Persónukjörsfrumvarp sjálfs forsætisráðherra dagaði uppi í nefnd vegna andstöðu eigin flokksmanna ríkisstjórnarinnar. Það var lagt fram að nýju af nýjum dómsmálaráðherra. Það dagaði líka uppi í nefnd. Hér er um það að ræða að persónulegir hagsmunir einstakra þingmanna um áframhaldandi setu að völdum eru teknir fram fyrir lýðræðið og teknir fram fyrir mikilvægustu mannréttindi fólksins, að geta valið sína eigin menn á Alþingi. Það er algjör óhæfa að við skulum enn þá búa við þá stöðu í dag. Núverandi persónukjörsfrumvörp eru föst í frysti innanríkisráðherra uppi í innanríkisráðuneyti og ekkert útlit fyrir að þau sjái nokkurn tímann dagsins ljós.

Allt tal um lýðræðisumbætur og aukið lýðræði hefur því verið innantómt skrum af hálfu þessarar ríkisstjórnar ef frá eru talin, og þar ber ekki að draga undan, drög að nýrri stjórnarskrá sem eru engu að síður eitt af mikilvægustu málum ríkisstjórnarinnar. Ég fagna því hversu langt hún er komin. Margir hafa reynt að leggja stein í veg fyrir þá stjórnarskrá. Ég er að vísu farinn að hafa talsvert miklar áhyggjur af þeim seinagangi sem er á því máli í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Allmargir mánuðir eru síðan sú nefnd fékk málið til meðhöndlunar. Það er að verða hálft ár síðan Alþingi fékk málið afhent frá stjórnlagaráði og það eru að verða síðustu forvöð fyrir Alþingi að komast frá þessu máli og mikilvægt að stjórnarmeirihlutinn haldi vel á spöðunum með framhaldið á því næstu vikur.

Annað sem hefur skort á í störfum ríkisstjórnarinnar er að ekkert hefur verið gert gagnvart versta óvini heimilanna á Íslandi í áratugi, verðtryggingunni. 110%-leiðin er ónýt, hún virkar ekki, hún er orðin að einhvers konar hringtorgi þar sem fólk fær skuldir sínar lækkaðar niður í 110% en vegna hækkandi verðbólgu, aukinnar gjaldtöku sjálfrar ríkisstjórnarinnar eru skuldir fólks komnar áður en varir upp í 120–130% og þá þarf að fara annan hring og svo annan hring og svo annan hring. Þetta er vítahringur, hæstv. forseti, sem gengur ekki upp og það þarf að finna leið út úr þessu.

Það hefur ekkert verið gert af alvöru í skuldamálum heimilanna. Tillögur Hreyfingarinnar um varanlega og viðunandi lausn á því máli hafa ekki náð fram að ganga. Fyrir og um jólin unnu nokkrir þingmenn og áhangendur Hreyfingarinnar að því að undirbúa tillögur sem mundu gera það kleift að færa skuldir heimilanna umtalsvert niður með almennum hætti án þess að það kæmi fram sem högg á ríkissjóð, efnahagsreikning fjármálafyrirtækja eða lífeyrissjóða. Þær tillögur hafa verið kynntar fyrir oddvitum ríkisstjórnarinnar en þeim var hafnað að því er virðist prinsippsins vegna. Það kom ekki fram ein einasta málefnaleg ástæða fyrir þeirri höfnun. Það er dapurlegt því að skuldir heimilanna, 73 þús. heimila, eru til komnar vegna bankamanna sem hegðuðu sér óheiðarlega, ollu hér hruni og gerðu það að verkum að heimilin voru rænd um hábjartan dag um nánast allt eigið fé sitt, fjölmörg heimili.

Ekki er hægt að halda því fram að við búum í siðuðu lýðræðisríki sem tekur ekki á slíku vandamáli og afleiðingum þess. Það er dapurlegt að sjá hvað ríkisstjórnin hefur gert lítið í því efni sem máli skiptir. Þetta hefur mestallt verið yfirborðskennd froða sem skilar sér afskaplega illa og seint.

Annað sem hefði mátt fara betur er þær afskriftir fyrirtækja sem við erum að verða vitni að í stórum stíl. Þær fara fram fyrir luktum dyrum og hafa í rauninni eyðilagt það litla samkeppnisumhverfi sem var til staðar hér í efnahagslífinu. Skortur á samkeppni þrátt fyrir Samkeppniseftirlitið er eitt helsta vandamál íslensks efnahagslífs vegna þess að skortur á samkeppni leiðir til tíðra og mikilla verðhækkana á öllum sviðum. Önnur samfélög búa ekki við slíkt umhverfi vegna þess einfaldlega að þar eru samkeppnismálin í lagi, hér er þetta tvöfalt högg fyrir neytendur vegna þess að hækkaða verðlagið leiðir einnig til hækkandi skulda heimilanna. Ekkert hefur verið gert til að taka á þessu máli þannig að verkefnin fram undan eru næg.

Ég minntist áðan á stjórnarskrána og drög að nýrri stjórnarskrá. Ég fagna framgangi ríkisstjórnarinnar í þeim málum og vona svo sannarlega að það náist að koma því plaggi í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum í júní. En það eru mörg önnur brýn mál sem ég tel að ríkisstjórnin þurfi að snúa sér að með öflugri hætti, það eru gjaldeyrishöftin, gjaldmiðilsmálin og öll þau önnur atriði sem ég hef talið hér upp. Það sem mér óar mest við og ég endurtek hér er að það er haldið áfram á svo mörgum sviðum á sömu braut og fyrir hrun. Þó að jöfnuði hafi verið náð á einhverjum hlutum með skattkerfinu er restin af byggingunni einfaldlega (Forseti hringir.) búin sömu gömlu fúaspýtunum og áður.