140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:09]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska frú forseta, hv. þingmönnum og starfsmönnum Alþingis gleðilegs árs og farsældar á árinu sem fer í hönd.

Ríkisstjórnin kynnti sig til sögunnar á sínum tíma í orði sem norræn velferðarstjórn, fyrsta vinstri stjórnin og maður spyr sig: Er hún það í verki? Hvað segir reynslan? Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar byggir á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013, sem gerð var í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gegn eindreginni andstöðu þingflokks VG. Forusta núverandi ríkisstjórnar fylgir gagnrýnislaust þeirri stefnu sem miðar almennt að því að verja fjármagnskerfið og fjármagnseigendur á kostnað almennings og velferðarkerfisins. Undir handleiðslu AGS hefur allt of stórt bankakerfi verið endurreist og haldið hefur verið fast í áætlun AGS í ríkisfjármálum í stað þess að standa vörð um velferðarþjónustuna.

Hv. formaður VG talaði á sínum tíma fyrir virkum eignarhluta ríkisins í nýju bönkunum, 1/3 hluta, að norrænni fyrirmynd til þess að geta haft áhrif. Hver er reynslan? Ríkisstjórnin veitti í stað þess hundruð milljóna króna í víkjandi lán og er áhrifalaus. Þar ráða för erlendir kröfuhafar, hákarlar sem reyna að hámarka arð sinn á kostnað heimilanna í landinu. Tugir ef ekki hundruð milljóna hafa svo farið í aðrar fjármálastofnanir og Sjóvá–Almennar, velferðin hefur goldið þess. Stefna AGS er eins fjarri því að vera stefna norrænnar velferðar og félagshyggju og hugsast getur.

Afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins var dæmigerð þar sem samfélagslegar áherslur voru fyrir borð bornar, tillögum um breytta forgangsröðun, tekjuöflun, fjárframlög í þágu velferðar og til að koma í veg fyrir og minnka atvinnuleysi var hafnað.

ESB-umsóknin er í öngstræti og sannleikanum um aðildarferlið er haldið frá þjóðinni og ESB mun aldrei samþykkja kröfur, skilyrði og forsendur Alþingis fyrir umsókninni. Gríðarmiklu fjármagni, tíma og kröftum hefur verið og er veitt beint og óbeint í þetta umsóknarferli. Hefði ekki verið nær að vinstri norræna velferðarstjórnin beitti þessum tíma, kröftum og fjármagni til að vinna gegn atvinnuleysisbölinu? Vel á minnst, hv. þm. Jóni Bjarnasyni var vikið úr ráðherrastóli fyrir einarðlega afstöðu sína í málinu í anda samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Því miður er það svo að hvert sem litið er er ESB-umsóknin algjört forgangsverkefni en ekki atvinnuleysið og það sem verra er, málið hefur klofið þjóðina í tvær fylkingar þegar við þurftum svo mikið á samstöðu að halda.

Saga Icesave er sorgarsaga. Icesave var og er skilgetið afkvæmi ESB-umsóknar og klúður að kröfu ESB. Skuldavandi heimilanna hefur ekki verið leystur og enn eru fjölmargar fjölskyldur í miklum vanda og fer sá hópur frekar vaxandi en hitt.

Svo spyr ég um eitt hugðarefni mitt, það eru kvenfrelsismálin. Það átti að útrýma kynbundnum launamun. Hann fer vaxandi. Það átti að efla vægi jafnréttismála, efla Jafnréttisstofu og tryggja áhrif kvenna í endurreisninni. Hver er raunin? Fjárveitingar til Jafnréttisstofu voru árið 2009 134,9 milljónir en eru fyrir árið 2012 83 milljónir. Meginfækkun starfa hjá hinu opinbera hefur að 2/3 eða meira bitnað á konum og meginþungi atvinnusköpunar hefur verið í þágu karla og kynjasjónarmið hafa gleymst við fjárlagagerð.

Sama gildir um landsbyggðina. Grunnþjónusta þar hefur orðið fyrir varanlegu tjóni og fækkun starfa hjá hinu opinbera bitnar fremur á fólki á landsbyggðinni. Við höfum enn ekki dregið lærdóma af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og íslensk stjórnmálamenning er vanþroskuð og gegnsýrð af foringjaræði. Mál eru afgreidd af þröngum hópi þingmanna þvert á niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Frú forseti. Ég get nefnt hér ótal fleiri dæmi en mér eru sniðnar fimm mínútur og þröngur stakkur í þeim efnum. Fyrir mér er niðurstaðan augljós: Ríkisstjórnin siglir undir fölsku flaggi norrænnar velferðar og félagshyggju. (Gripið fram í: Rétt.) (Gripið fram í: Heyr, heyr!)