140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:51]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var mynduð við afar óvenjulegar aðstæður og þurfti strax frá fyrsta degi að takast á við tröllaukna rústabjörgun eftir afdrifaríka ríkisstjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn réði för í ríkisstjórn samfleytt frá árinu 1991–2009, lengst af með Framsóknarflokki, og fylgdi á þessum árum stefnu nýfrjálshyggjunnar sem fól í sér ofurtrú á gildi og yfirburði markaðarins umfram önnur svið þjóðlífsins. Hefðbundin helmingaskiptapólitík þessara flokka réð miklu um einkavæðingu ríkisbankanna og í kjölfarið fylgdi ríkisstjórnin afskiptaleysisstefnu gagnvart fjármálakerfinu með lömuðu eftirlitskerfi sem gerði almenning og fyrirtæki berskjölduð fyrir þeirri svikamyllu sem stjórnendur bankanna hönnuðu og leiddi til hruns fjármálakerfisins.

Núverandi ríkisstjórn fékk í fangið risavaxið verkefni í ársbyrjun 2009: 216 milljarða kr. fjárlagahalla, verðbólgu og 18% stýrivexti, atvinnuleysi í sögulegu hámarki, ónýtt orðspor landsins á alþjóðavettvangi. Ríkisstjórnin einhenti sér í að ráða niðurlögum fjárlagahallans til að leggja grunn að endurreisn hagkerfisins og hefur þar náð miklum árangri, því hallinn hefur minnkað um ríflega 75% frá árinu 2009. Vextir og verðbólga hafa lækkað í 5–6%. Dregið hefur úr atvinnuleysi og hagvöxtur er nú talsvert meiri hér en í velflestum öðrum löndum Evrópu.

Í öðru lagi setti ríkisstjórnin sér það markmið að tryggja varanlegt eignarhald þjóðarinnar á sameiginlegum auðlindum og móta nýja atvinnustefnu með áherslu á fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun og eflingu grænnar atvinnustarfsemi í sátt við sjónarmið um náttúruvernd.

Í þriðja lagi að skapa forsendur fyrir nýjum samfélagssáttmála, meðal annars með tillögum að nýrri stjórnarskrá, ekki síst í þeim tilgangi að auka raunverulegt lýðræði í landinu og með heildstæðri endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu sem meiri hluti þjóðarinnar hefur um árabil kallað eftir breytingum á á grundvelli almannahagsmuna.

Í fjórða lagi að leggja grunn að nýju og varanlegu jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar með umsókn um aðild að Evrópusambandinu, ekki síst í þeim tilgangi að komast í stöðugra gjaldmiðlaumhverfi og leggja þar með grunn að afnámi verðtryggingar, lækkun vaxta og verðlags í þágu almennings í landinu.

Þetta er ekkert áhlaupsverk en þó hefur öllum þessum málum miðað áfram. Sumt hefur gengið vel, svo sem baráttan við fjárlagahallann, stjórnkerfisbreytingar, tillögur að nýrri stjórnarskrá og mótun nýrrar atvinnustefnu. Hins vegar hefur hægar miðað við mótun á upptöku samræmdrar auðlindastefnu og endurskoðun kvótakerfisins. Ég hef hins vegar mikla trú á því að ríkisstjórnin, undir leiðsögn hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, komi þessu máli á góðan rekspöl á næstu vikum.

Það er algjört forgangsmál að ganga frá heildstæðri endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða á þessu vorþingi og innleiða hér nýja skipan þar sem þjóðin fær sanngjarnan hlut af hagnaðinum af nýtingu auðlindarinnar, komið verður til móts við kröfur um eðlilega nýliðun og atvinnufrelsi í greininni og útgerðinni verða sköpuð langtímaskilyrði til vaxtar og fjárfestinga.

Virðulegi forseti. Græn atvinnustefna er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar, en fulltrúar allra þingflokka á Alþingi lögðu fram í haust tillögur um 48 aðgerðir til að efla grænt hagkerfi á Íslandi. Þar er meðal annars lagt til að efnt verði til fjárfestingarátaks, bæði með stofnun sjóðs sem fjárfesti í innlendum fyrirtækjum á sviði umhverfisvænnar starfsemi og sérstöku fimm ára verkefni til að laða að erlenda, græna fjárfestingu. Samhliða verði aukið verulega við framlög til umhverfisvænnar nýsköpunar, rannsókna og þróunar í gegnum Tækniþróunarsjóð, beitt ýmiss konar hagrænum hvötum til að örva vistvæn innkaup á vegum ríkisins og sömuleiðis fjárfestingar fyrirtækja í tæknilausnum sem spara orku, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun, svo örfá dæmi séu nefnd.

Ljóst er að efling græns hagkerfis á Íslandi gæti leitt til sköpunar nokkur þúsund fjölbreyttra starfa í íslensku atvinnulífi á allra næstu árum ef aðgerðaáætlunin nær fram að ganga á vorþingi. Verkefni vorþingsins eru reyndar mörg og brýn. Ég hef þegar nefnt stjórnarskrármálið, nýja fiskveiðistjórn og grænt hagkerfi, en því til viðbótar er mikilvægt að ljúka þinglegri meðferð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem rétt eins og tillögurnar um græna hagkerfið skapar grundvöll til sögulegra sátta milli sjónarmiða auðlindanýtingar og náttúruverndar.

Virðulegi forseti. Það er mikið verk að skapa og ná samstöðu um nýjan samfélagssáttmála í kjölfar bankahruns, en ábyrgð okkar í þessari stofnun er sérstaklega mikil. Við höldum að mörgu leyti á fjöreggi þjóðarinnar, framtíðinni sem getur orðið björt ef okkur lánast að stilla saman strengina, vinna saman að þjóðarhag, en láta flokkadrætti ekki villa okkur sýn. Ég hef ekki langa þingreynslu, en ég hef hins vegar margoft orðið vitni að því á undanförnum tveimur til þremur árum að þingmenn úr ólíkum flokkum geta átt gott og árangursríkt samstarf ef víðsýni og virðing fyrir skoðunum annarra ræður för í verkstjórn mála í þinginu. Megi okkur auðnast að rata þá slóð á því vorþingi sem nú (Forseti hringir.) er hafið.