140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með jómfrúrræðu sína í því mikilvæga embætti og mikilvæg verkefni sem bíða hennar.

Við ræðum um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé óhætt að gera það miðað við þær breytingar sem átt hafa sér á stjórnarheimilinu á síðustu vikum og mánuðum. Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort þessi ríkisstjórn býr við meiri hluta á Alþingi eða ekki.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram mjög ítarlegar tillögur í efnahagsmálum, í skattamálum, í atvinnumálum þjóðarinnar, en því miður hefur lítið verið hlustað á þær af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Við þekkjum það svo sem frá því þegar við fluttum fram tillögur í efnahags- og skuldamálum þjóðarinnar í ársbyrjun ársins 2009, um flata leiðréttingu á höfuðstól skuldbreyttra lána heimilanna, þá var ekkert hlustað. Þá vildum við leiðrétta skuldir heimilanna með almennum hætti til að minnka það vandamál sem við okkur blasti þar, en ekkert var hlustað á okkur. Í staðinn var farið í mjög flókna útfærslu þar sem hálfur milljarður verður á þessu ári settur í að greiða lögfræðingum fyrir að fylgja fjölskyldum inn í héraðsdóm þessa lands og annar hálfur milljarður fer í sérstakt verkefni sem er umboðsmaður skuldara. Það eru heilmiklir fjármunir sem kosta skattborgara þjóðarinnar fé vegna þessarar stefnu stjórnarinnar.

Við búum við ríkisstjórn sem eyðir kröftum sínum fyrst og fremst í að viðhalda sjálfri sér og sanna það nýleg dæmi.

Við horfum upp á 170 breytingar á skattkerfinu sem hafa valdið því að Ísland er nú með það orðspor á alþjóðavísu að hér sé pólitísk óvissa og að hér hafi þvílíkar breytingar verið gerðar á rekstrarumhverfi íslensks atvinnulífs að ekki sé fýsilegt að koma hingað og hefja atvinnustarfsemi. Okkur er líkt við lönd eins og Egyptaland og Suður-Ameríku í þessu samhengi og lengi mætti telja. Hver er niðurstaðan af þessu? Það er 13% fjárfesting á Íslandi í dag á meðan meðaltalsfjárfesting síðustu áratugi var 21%. Þar vantar 8% upp á. Það vantar 140 milljarða kr. í fjárfestingu í íslensku atvinnulífi.

Hvað leiðir það af sér? 13.000 manns eru án atvinnu. Þúsundir Íslendinga hafa flust úr landi, sérstaklega til Noregs. Sögulegir fólksflutningar. Síðasta ár er eitt það mesta fólksflutningaár í sögu landsins en hæstv. ríkisstjórn vill ekki sjá það. Það gengur alveg fram af mér að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra — nei, fyrirgefið, fyrrverandi fjármálaráðherra, við skulum nota stuttu útgáfuna af því — komi hér upp sigri hrósandi yfir því að á fjórða ársfjórðungi síðasta árs hafi Íslendingum fækkað, eins og það sé einhver stórsigur. (Forsrh.: Fækkað?) Þeim fækkaði, hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra vill ekki horfast í augu við að síðasta ár var eitt hið allra versta þegar kemur að fólksflutningum úr þessu landi.

Lífskjarasóknin heldur áfram, segir hæstv. forsætisráðherra. Hver verður þróun á kjörum aldraðra og öryrkja á þessu ári? Lífskjarasóknin heldur áfram, segir hæstv. forsætisráðherra. Kjör aldraðra munu skerðast. Kjör öryrkja munu skerðast. (Gripið fram í.) Lífskjarasóknin heldur áfram. Á fjórum árum hafa barnabætur til tekjulægsta fólksins lækkað að raunvirði um næstum 30%. Þessi fjögur ár eru akkúrat valdatími Samfylkingarinnar. Það er búið að lækka barnabætur til fátækustu heimilanna um 30% á meðan stökkbreyttar skuldir þessara sömu heimila hafa aukist um 40%. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra hér upp og líkir efnahagsstjórn sinni við kraftaverk. Það er ósköp eðlilegt að sumir brosi þegar þessar tölur eru nefndar. Ég efast um það að hæstv. forsætisráðherra lifi í sama veruleika og stór hluti þjóðarinnar.

Komið hefur fram að hátt í 50% þjóðarinnar eiga erfitt með að ná endum saman. Hæstv. forsætisráðherra talar um kraftaverk. Það er kannski eðlilegt að hæstv. utanríkisráðherra og samverkamaður hæstv. forsætisráðherra til áratuga í pólitíkinni kalli eftir því að nýr foringi verði kjörinn innan raða Samfylkingarinnar, að tími hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sé liðinn. Þess vegna erum við með bráðabirgðaforsætisráðherra. Er hægt að bjóða okkur upp á þetta ástand? Er hægt að horfa upp á það hversu menn hafa skemmt sér yfir og eru glaðbeittir, sérstaklega innan raða Samfylkingarinnar, yfir örlögum Jóns Bjarnasonar? Það hafðist að lokum að koma hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra Jóni Bjarnasyni úr ríkisstjórninni og við hefur tekið hæstv. landbúnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra, væntanlegur iðnaðarráðherra, (Forseti hringir.) efnahagsráðherra, viðskiptaráðherra, hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon. Hann hefur tekið við völdum. Það verður örugglega nóg að gera (Forseti hringir.) á þeim bænum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)