140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að koma þessu máli á dagskrá. Það hefur verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum landsins og sitt sýnist hverjum. Því miður tel ég að málið sé komið í ógöngur. Hörð ummæli hafa fallið um hvort hægt sé að ráðast í verkið, hvort það sé arðbært o.s.frv., og átök innan stjórnarflokkanna lita umræðuna, því miður. Mig langar samt að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hann sé sammála mér um að hægt sé að koma þessu máli í betri farveg.

Nú liggur fyrir skýrsla frá IFS Greiningu þar sem það er staðfest að allar þær forsendur sem koma frá fjármálaráðuneytinu og þeim sem ætla að ráðast í framkvæmdina standist. Vissulega er einhver áhætta eins og með allar aðrar framkvæmdir og rétt að viðurkenna það. Ég segi fyrir mitt leyti að það var illa staðið að því í fjárlögum að taka ekki framkvæmd eins og þessa beint inn í fjárlög eins og gengur og gerist en við samþykktum það jú í fjáraukalögum að framkvæmdin yrði sett af stað. Allar heimildir eru til staðar en málið er stopp í þinginu. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra mun væntanlega koma hér upp og segja að málið sé á forræði þingsins. Það er vissulega rétt en hann fer samt með samgöngumálin og ég vil því spyrja hann hvort þessi framkvæmd sé einfaldlega ekki það mikilvæg að ráðast þurfi í hana sem fyrst.

Eins og ég sagði er áhætta fólgin í því og menn tala um að auka þurfi eigið fé. Hefur ráðherra til dæmis skoðun á því hvort hægt væri að vinna fjármagnsáætlunina upp á nýtt og þá til lengri tíma? Það liggur fyrir að fólkið á svæðinu, sveitarfélögin og aðrir aðilar ætla að greiða fyrir framkvæmdina að fullu ef áætlanir standast. En jafnvel þó að eitthvað lendi á ríkinu, telur innanríkisráðherra ekki að þetta sé samt slík framkvæmd að það eigi að ráðast í hana?

Í þessari skýrslu IFS, sem er góð, er til dæmis ekkert um þjóðhagslegan ávinning af framkvæmdinni, þar er ekkert um framkvæmdir á Bakka en ég veit að ríkisstjórnin ætlar sér á einhverju stigi að ráðast í frekari uppbyggingu þar.

Ég vildi heyra hvort hæstv. innanríkisráðherra sé ekki sammála mér um að hægt sé að koma þessu máli í betri farveg og fá svör við þeim spurningum sem ég beindi til hans.