140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að þegar hugað er að samgöngubótum er horft til þjóðhagslegra þátta og ýmissa annarra þátta sem vísað er til í samgönguáætlun. Við röðum framkvæmdum upp í samgönguáætlun með tilliti til slíks, hversu hagkvæmt þetta er talið vera, hve miklar og hversu brýnar samgöngubæturnar eru og þar fram eftir götunum. Þar forgangsröðum við. Það var hins vegar ákveðið að taka þessa tilteknu framkvæmd út úr samgönguáætlun vegna þess að forsendur áttu að vera aðrar, að hún yrði ekki fjármögnuð með skattfé heldur einvörðungu með gjöldum líkt og Hvalfjarðargöngin. Við skulum því halda þeirri umræðu alveg til hliðar, hinum þjóðhagslegu, það er nokkuð sem við horfum til þegar við fjöllum um samgönguáætlun. Síðan eru það hinir fjárhagslegu þættir, viðskiptamódelið sem allt stendur og fellur með hvað varðar Vaðlaheiðargöng.

Síðastliðið vor ritaði ég stjórn Vaðlaheiðarganga bréf þar sem ég ítrekaði þessa nálgun og sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu að hefja þessar framkvæmdir ef þetta viðskiptamódel stæðist. Nú eru þær forsendur til skoðunar hjá Alþingi, annars vegar hjá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, sem meðal annars var að fjalla um málið í morgun, og hins vegar fjárlaganefnd þingsins. Það er hinn eðlilegi farvegur. Ógöngurnar eru ekkert meiri en svo að Alþingi Íslendinga, fjárveitingavaldið, er að skoða forsendur þessa máls. Það er hinn eðlilegi farvegur sem málið er nú í.