140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:28]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér sýnist að þær forsendur sem lágu að baki því að taka þessa framkvæmd út úr samgönguáætlun séu nú á bak og burt og ef ráðast á í þessa framkvæmd utan samgönguáætlunar verði að skapa til þess nýjar forsendur með ríkisfé sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri forsendum, hvaðan sem það á að koma og hvernig sem á að verja það gagnvart öðrum framkvæmdum og öðrum hagsmunum.

Ég veit ekki hvað gerist hér í því efni en ég tel mig hafa fyrir því vissu að þetta mál verði rætt í þingsölum enn um sinn. En ef menn vilja framkvæmd sem er örugg, þar sem tekjur eru klárar, þar sem framkvæmdir eru skýrar og þar sem bæði öryggi og samgöngumál aukast og batna, er hún til. Hún heitir tvöföldun Hvalfjarðarganga.