140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

gerð og fjármögnun Vaðlaheiðarganga.

213. mál
[17:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn. Ég tel mjög mikilvægt að við svörum ákveðnum spurningum varðandi þetta verk. Ég hef ákveðin svör. Í Þingeyjarsýslum eru mestu náttúru- og orkuauðlindir landsins. Við stefnum að því að hefja mikla atvinnustarfsemi samhliða því að nýta þessar orkuauðlindir. Vaðlaheiðargöng eru ein forsenda þess að okkur geti auðnast að byggja upp atvinnustarfsemi á Norðausturlandi. Ég hef skoðað þetta mál mjög vandlega. Við framsóknarmenn höfum unnið að þessu máli frá því fyrir árið 2007. Við viljum koma þessari framkvæmd á. Ég tel að hún sé þjóðhagslega hagkvæm. Ég tel að svartsýnisspár varðandi umferð og notkun á þessu umferðarmannvirki standist einfaldlega ekki en ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum að menn hafi aðrar skoðanir. Ég mun gera mitt og við framsóknarmenn til að stuðla að því að þessi mikilvæga framkvæmd nái fram að ganga, enda hafa (Forseti hringir.) heimamenn boðist til að greiða fyrir hana með veggjöldum.