140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

umskipunarhöfn í tengslum við norðurslóðasiglingar.

214. mál
[17:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir ræður þeirra. Við erum að tala um mjög áhugavert og mikilvægt málefni að mínu viti sem er möguleg umskipunarhöfn á Norðausturlandi vegna norðurslóðasiglinga. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir hvernig málum er háttað.

Mig langar að hvetja til að haldið verði áfram af miklum krafti að skoða þetta mál vegna þess að tíminn líður hratt og eins og hæstv. ráðherra nefndi er ýmislegt að gerast í þessum flutningamálum. Ég held að við eigum helst að láta skoða fyrir okkur hvað er líklegt að gerist í framtíðinni og vera undirbúin því að hvað sem öðru líður megum við ekki missa af lestinni ef tækifæri opnast þarna.

Svo megum við ekki gleyma því heldur, frú forseti, að nú aukast líkurnar á að olíu sé að finna á Jan Mayen-hryggnum norður af landinu og þar af leiðandi getur höfn ekki bara nýst sem umskipunarhöfn heldur einnig þegar kemur að þeim framkvæmdum og verkefnum.