140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

umskipunarhöfn í tengslum við norðurslóðasiglingar.

214. mál
[17:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa fyrirspurn sem og hæstv. ráðherra svörin. Hér er hreyft við mjög stóru máli sem gæti breytt í grundvallaratriðum búsetuskilyrðum og íbúaþróun á norðaustanverðu landinu. Sveitarfélögin á þessu svæði hafa lagt fram mikla fjármuni og mikla vinnu við að undirbúa þetta mál.

Ég kem upp til að fylgja því eftir að hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórn haldi áfram að vinna að þessu máli vegna þess, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minntist á, að við megum ekki missa forustu hvað þessi mál áhrærir vegna þess að önnur lönd gætu sótt fram. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að spýta í lófana og halda áfram að vinna að því að Ísland verði umskipunarhöfn fyrir Norður-Atlantshafið vegna þess að hér er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða og þó að við séum að tala um 10–20 ár erum við að tala um svo mikla hagsmuni að við megum einfaldlega ekki sofna á verðinum.