140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

millidómstig.

296. mál
[18:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta góð hugmynd sem hv. þingmaður setur fram. Hún var reyndar rædd á vinnufundi í ráðuneytinu í morgun, þ.e. að settur verði á fót starfshópur sem gaumgæfi það sem fram kom í skýrslunni, þær leiðir sem þar eru lagðar til. Við skulum ekki gleyma því að við erum jafnframt að tala um umtalsverða fjármuni, (Gripið fram í.) um fjórðung úr milljarði, sem kæmu til viðbótar í dómskerfið. Ef ég misheyrði eitthvað sem hv. þingmaður sagði í þessu efni veit ég samt að ég misheyrði ekki hitt, og þar erum við alveg sammála, að það er mikilvægt að koma hér á millidómstigi. Ég er honum sammála um það og ég mun gera allt sem ég get til að flýta þessari þróun en þó með það í huga að þegar breytingar eru gerðar á réttarkerfinu þurfa þær að byggja á samstöðu og við eigum að sjálfsögðu ekki að flana að neinu. Það erum við heldur ekki að gera. Þetta er í ágætum og markvissum farvegi og þannig verður áfram unnið að þessum málum. (HöskÞ: Ég er ekki að leggja til að þetta verði sett í nefnd.) Nei, ef hv. þingmaður er ekki að leggja til að þetta verði sett í nefnd vil ég ítreka mikilvægi þess að skoða alla kosti og galla, fjárhagslegar skuldbindingar, að við sköpum okkur ekki vanda með því að flana að málum eða fara of hratt í sakirnar. Það er vinna sem er ágætlega unnin í nefnd.