140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ljósmengun.

132. mál
[18:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Fyrirspurn mín hljóðar svo:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að athuguð verði ljósmengun á Íslandi og lagt á ráðin um varnir við slíkri mengun?“

Þetta er í þriðja sinn sem ég ber þessa fyrirspurn upp við umhverfisráðherra, þó ekki núverandi hæstv. umhverfisráðherra. Það voru umhverfisráðherrar árin 2005 og 2006, annar þeirra var að skoppa hér um í salnum rétt áðan, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Svör voru ekki mikil þá en út af fyrir sig vinsamleg, einkum kannski í síðara skiptið. Nú er vænst betri svara um þetta úrlausnarefni í nútímalífi okkar sem búum í þéttbýli og einkum þeirra sem búa í þéttbýlinu á suðvesturhorninu. Ljósmengun heitir þetta en það væri kannski nær að orða það jákvætt og tala um gæði eða verðmæti myrkurs. Við í umhverfisverndar- eða náttúruverndarfélaginu Græna netinu héldum einmitt fund um verðmæti myrkursins á laugardaginn og eigum þá meðal annars við efnisleg verðmæti. Þau eru til, Einar Ben. reyndi að selja norðurljósin, tókst það að vísu ekki, en núna erum við að selja norðurljósin ferðamönnum sem hingað koma að leita gæðanna í norðrinu. Við erum auðvitað líka að tala um, hvað eigum við að kalla það, andleg verðmæti, myrkur og næturhimin sem hluta af lífsgæðum. Svo ég tali um sjálfan mig minnist ég þess að í æsku minni var hinn alstirndi himinn að nóttu í góðu veðri sjálfsagður hluti af tilverunni en svo er ekki lengur. Kynslóð eftir kynslóð af borgarbörnum fer á mis við þetta og kannast varla við þennan hluta af náttúrunni, sjálfan geiminn.

Það hefur gerst á þessum árum að nú er komin fyrsta könnunin á því hvernig myrkrið á höfuðborgarsvæðinu er. Myrkurkort af höfuðborgarsvæðinu heitir sú könnun eftir Snævarr Guðmundsson, háskólaverkefni. Hann er landfræðingur og leiðsögumaður og hann mældi á svipuðum stöðum skilyrði á öllu höfuðborgarsvæðinu og niðurstöðurnar sýndu ljóshjúp yfir öllu svæðinu sem er sennilega einhver mesti ljóshjúpur á byggðu bóli miðað við höfðatölu. Það er ekki hans niðurstaða heldur mín ályktun.

Vitund almennings er smám saman að vakna gagnvart þessari staðreynd og þá er auðvitað að huga að úrræðum. Þau eru til, en þetta er ekki einfalt mál. Þetta snertir lifnaðarhætti okkar að sumu leyti og sögu okkar sem myrkurþjóðar í norðrinu sem þykir vænt um ljósið og höfum núna á 20. og 21. öldinni farið svolítið með það eins og stálpuð börn með jólagjafirnar sínar. Við þurfum að endurskoða þetta og huga að því sem í myrkrinu felst sem er margt en ekki allt vont.