140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ljósmengun.

132. mál
[18:11]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Eins og kunnugt er er fyrirspyrjandi einn ötulasti kyndilberi, vil ég leyfa mér að kalla það í anda umræðunnar, í baráttunni fyrir varðveislu næturmyrkursins. Það sést best á því að í þriðja sinn leggur hann fyrir umhverfisráðherra fyrirspurn um ljósmengun og ég bætist þar með í hóp tveggja forvera minna sem hafa staðið hér og svarað þessu áður.

Í íslenskri löggjöf eru enn engin ákvæði eða skilgreiningar sem varða ljósmengun beint eða aðgerðir til að takmarka hana. Það eru til dæmis engar vísbendingar í lögskýringargögnum með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, eða í fyrri lögum um sama efni um að þeim hafi á nokkurn hátt verið ætlað að taka til ljósmengunar. Í þeim lögum er kveðið á um að ráðherra setji í reglugerð almenn ákvæði um tiltekin atriði til að stuðla að mengunarvarnaeftirliti en ráðstafanir til að sporna gegn ljósmengun og athugun á henni falla ekki þar undir. Það er því alveg ljóst að ætluðu stjórnvöld að takmarka hugsanlega ljósmengun þyrfti sennilega að festa í lög sérstök ákvæði þar um.

Þessar upplýsingar sem ég hef farið með eru fyrirspyrjanda væntanlega ágætlega kunnar enda eru þær efnislega nokkuð líkar þeim svörum sem fyrirrennarar mínir hafa báðir fært honum. Það er þó ekki svo að ekki hafi þokast á þeim árum sem liðin eru frá því að síðast var hreyft við þessu máli í þingsal. Þar sem fyrirspyrjandi er ekki bara áhugamaður um myrkur heldur ekki síður orðabókaskilgreiningar get ég glatt hann með þeim tíðindum að innan skamms fær skilgreining á ljósmengun stað í byggingarreglugerð. Í drögum að þeirri reglugerð sem gert er ráð fyrir að taki gildi á næstu vikum er sett fram sú skilgreining að ljósmengun sé þau áhrif sem verða á umhverfið af mikilli og óhóflegri lýsingu í næturmyrkri.

Þá er í sömu drögum fjallað um útilýsingu og gerð tillaga um að í reglugerðinni verði ákvæði um að við hönnun á útilýsingu skuli gæta þess að ekki verði um óþarfa ljósmengun að ræða frá flóðlýsingum mannvirkja og frá götu- og veglýsingu. Þannig skuli tryggja að útilýsingu sé beint að viðeigandi svæði og að nota skuli skermaða lampa sem varpi ljósi niður og valdi þess vegna minni glýju og næturbjarma sem fyrirspyrjandi nefndi í framsögu sinni. Þetta mun til dæmis ná til flóðlýsingar á íþróttasvæðum og virkjanasvæðum.

Í eitt af þeim fyrri skiptum sem hv. þingmaður spurðist fyrir um ljósmengun lýsti hann upplifun sinni af því að aka austur fyrir fjall og sjá eins og að geimskip lægi yfir Hveragerði þar sem gróðurhús bæjarins lýstu upp næturhimininn. Nýja byggingarreglugerðin mun væntanlega ekki ná beint til lýsingar í gróðurhúsum, en reyndar er þar kveðið á um að við gerð og hönnun bygginga skuli taka tillit til orkunýtingar og áhrifa bygginga á umhverfi sitt og þar með talið væntanlega slíkra álitamála.

Á þeim árum sem liðin eru síðan fyrirspyrjandi lýsti upplifun sinni af akstri í átt að Kambabrún hefur sú upplifun breyst nokkuð. Í dag er búið að koma fyrir miklum mannvirkjum sem varpa ljósi yfir Svínahraunið svo tæpast er lengur hægt að koma bílnum fyrir í vegarkantinum til að njóta stjörnubirtu eða norðurljósa eins og unnendur náttmyrkurs gátu leyft sér fyrir örfáum árum, í það minnsta á þeim kvöldum þegar ljóskastararnir í Hamragili böðuðu Svínahraunið ekki birtu.

Fyrirspurn hv. þingmanns beinir sjónum okkar að umhverfisgæðum sem oft hefur verið litið fram hjá en eru ef til vill þau sérstæðustu sem íslensk náttúra hefur yfir að ráða. Það er ekki bara djúpa og alltumlykjandi myrkrið okkar heldur líka þögnin, kyrrðin og víðátturnar. Þetta eru í raun og veru náttúruperlur, hvorki meira né minna, sem stór hluti erlendra ferðamanna sem sækja okkur heim vill upplifa enda eru þetta allt gæði sem við njótum í krafti þess að vera fámenn þjóð í stóru landi, gæði sem nágrannaþjóðir okkar hafa fyrir löngu glatað að mestu.

Líkt og komið hefur fram í fyrri svörum til hv. þingmanns um sama efni hafa ekki farið fram hér á landi rannsóknir á umfangi ljósmengunar ef frá er þá talin sú könnun sem þingmaðurinn gerði grein fyrir áðan. Ekki hafa verið uppi sérstakar áætlanir á vegum ráðuneytisins til að athuga eða fara yfir ljósmengun hér á landi í náinni framtíð. Eins og ég gerði grein fyrir í svari mínu sér þess stað í byggingarreglugerð að þetta er einn af þeim umhverfisþáttum sem við viljum gæta að í manngerðu umhverfi.