140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ljósmengun.

132. mál
[18:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þessa þörfu fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er mikið fagnaðarefni að það skuli eiga að taka þessi mál inn í byggingarreglugerð vegna þess að það er mikilvægt strax á skipulagsstigi nýrra mannvirkja, ég tala nú ekki um ef þau mannvirki eru einhvers staðar úti í auðninni, svo sem hótel- eða þjónustubyggingar ýmiss konar fyrir ferðamenn eða virkjanabyggingar. Þær geta gereyðilagt upplifunina sem menn hafa af því að koma út í myrkrið, skoða stjörnurnar og ekki síst norðurljósin.

Í þjóðgarðinum á Þingvöllum og reyndar um alla Mosfellsheiðina er strax þegar haustar og myrkvar kominn stór hópur ferðamanna, stundum fleiri hundruð manns á góðum kvöldum þegar stjörnubjart er, til að njóta þessarar upplifunar. Það er mikilvægt þegar við tölum um að við ætlum að fara að selja Ísland allt árið og taka hér (Forseti hringir.) vel á móti ferðamönnum yfir vetrartímann líka að við pössum upp á ljósmengunina.