140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ljósmengun.

132. mál
[18:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa athyglisverðu fyrirspurn sem er, eins og fram hefur komið, borin upp núna í þriðja sinn við þriðja ráðherrann. Ég þakka fyrir að þessu máli skuli vera haldið vakandi því að þetta er mikilvæg umræða. Þetta eru gæði sem við í þessum sal, flestöll kannski á svipuðu kynslóðabili, höfum gengið að gefnum, þ.e. að geta notið myrkursins, stjörnuljósanna, norðurljósanna o.s.frv. Það er hins vegar ekki sjálfsagt og þess vegna er mikilvægt að framkvæmdarvaldið sé meðvitað um það með því að beita ákveðnum reglugerðum um leið og við áttum okkur á því hvaða auðlind þetta er. Þetta er sannarlega auðlind sem við getum ekki gengið að gefinni, eins og ég segi. Ég minnist mikillar umræðu sem spratt upp á sínum tíma, m.a. með ákveðinni gjöf Orkuveitunnar sem átti að vera til að lýsa upp Þrengslaveginn, eflaust ágæt út frá umferðaröryggismálum en á móti kom að ákveðin verðmæti (Forseti hringir.) hurfu með þeirri aðgerð. Þetta hljóta að vera atriði sem við förum vel yfir þegar við erum að fara í hinar ýmsu framkvæmdir.