140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

fjárframlög til veiða á ref og mink.

151. mál
[18:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra um fjárframlög til veiða á ref og mink. Það er ekki að ástæðulausu. Undanfarin ár hef ég lagt fyrirspurn af þessu tagi fyrir hæstv. ráðherra sem hafa gegnt þessu ráðherraembætti. Nú keyrir um þverbak vegna þess að á árunum 2005–2009 voru þó framlög til veiða á ref en eins og sakir standa núna eru engin fjárframlög til veiða á íslenskum ref. Það segir okkur að verið er að færa byrðarnar yfir á landstór, fámenn sveitarfélög. Ef við tökum til að mynda Skútustaðahrepp sem dæmi, Mývatnssveitina, þá vilja heimamenn þar halda í litríkt fuglalíf en skyttur á grenjum hafa sagt mér að á þessum slóðum hafi jafnvel fundist nokkur hundruð ungar fyrir utan sum grenin sem tófan hefur tekið til að fæða yrðlinga sína.

Nú eru þessar veiðar orðnar að féþúfu hjá ríkissjóði vegna þess að greiddur er virðisaukaskattur af þeim. Í ljósi þess að ríkið leggur enga fjármuni í veiðar á ref en greiddur er virðisaukaskattur af þeim, þá er ríkið farið að hagnast um nokkrar milljónir á ári vegna þessa.

Ég ræddi áðan, frú forseti, við Harald Þór Jóhannsson sem er bóndi í Enni í Skagafirði. Hann sagði mér í fyrra sögur af því þegar dýrbítar gengu þar lausir, fleiri en einn. Árið 2010 missti hann átta ær þar sem var ráðist á þær og kjálkinn rifinn af, blóðið drukkið og kindunum blæddi út. Því miður hafa sveitarfélögin mjög takmörkuð fjárráð til að standa undir því að halda refastofninum í skefjum. Nú er ég ekki að tala um að útrýma eigi íslenska refnum, síður en svo. En hins vegar verður að aðstoða fámenn sveitarfélög til að standa að veiðunum þannig að við getum haldið stofninum í skefjum. Annars eigum við á hættu að blómlegt fuglalíf í sveitum landsins sem við vonandi flest viljum varðveita muni fara þverrandi.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann ætli að beita sér fyrir því að að minnsta kosti virðisaukaskatturinn sem kemur af þessum veiðum verði settur í þennan málaflokk. Í lok máls míns vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað líði því að reyna að útrýma mink hér á landi en sú tegund á ekki heima í íslensku vistkerfi.