140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

fjárframlög til veiða á ref og mink.

151. mál
[18:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu og þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari mikilvægu umræðu. Ástandið kristallast kannski í þeim orðum hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að fjöldi refa um nokkurra ára skeið hefur fimmfaldast, úr 2.000 í 10.000. Þegar hæstv. ráðherra segir að dýrbítar hafi verið hér á landi allt frá því fyrir landnám þá er það örugglega rétt. En þegar stofninn fimmfaldast getum við kannski dregið þá ályktun að dýrbítum hafi fjölgað um samsvarandi hlutfall. Við erum að tala um gríðarlega mikilvægt mál og við heyrum það úr sveitum landsins að refir leggjast í sífellt auknum mæli á lambfé sem er grafalvarlegt.

Það er líka mjög alvarlegt þegar við horfum á verksummerkin eftir þá miklu fjölgun. Fuglar hætta að syngja og mófuglar hverfa. Eins og við höfum bent á þarf gríðarlegan fjölda unga til að koma yrðlingum úr greni. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál. Það er ljóst að með nýjustu breytingum ríkisstjórnarinnar um að leggja ekki eina krónu fram til að standa straum af refaveiðum í landinu er verið að hafa þessa atvinnugrein að féþúfu. Ríkisstjórnin hirðir virðisaukaskatt af þessum veiðum en leggur ekki neitt fram á móti þannig að ég spyr hæstv. ráðherra aftur: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að að minnsta kosti virðisaukaskatturinn, þær tekjur sem ríkið fær af veiðum á ref, skili sér til sveitarfélaganna þannig að menn geti staðið vörð um landbúnaðinn og um náttúru landsins? Síðast þegar ég vissi kenndi Vinstri hreyfingin – grænt framboð sig við náttúruvernd. Það er ekki sjálfbær þróun að refastofninn hér á landi hafi á undanförnum árum margfaldast (Forseti hringir.) með tilheyrandi afleiðingum fyrir fuglalíf og jafnvel fjárstofninn í landinu.