140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ósnortin víðerni.

279. mál
[18:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég ber fram þrjár fyrirspurnir til hæstv. umhverfisráðherra og ég ætla að lesa þær upp hér í upphafi:

1. Kemur til greina að skilgreind verði þau svæði sem rétt er að verði í þjóðareign vegna náttúruverndarhagsmuna og landslagsheilda sem flokkast undir ósnortin víðerni samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999?

2. Kemur til greina að gerð verði áætlun um kaup íslenska ríkisins á slíkum svæðum séu þau í einkaeign?

3. Hve stór í prósentum talið eru ósnortin víðerni í öðrum Evrópulöndum samkvæmt sömu skilgreiningu náttúruverndarlaga og skilgreinir 42% Íslands sem ósnortin víðerni (31% án jökla)?

Fyrirspurnin er sprottin upp vegna hugsanlegra kaupa kínversks aðila á 30 þúsund hektörum uppi á Grímsstöðum á Fjöllum. Var það mjög umdeilt mál og erfitt að taka á því. Að lokum fór svo að því var hafnað að veita undanþágu. Þegar röksemdafærsla hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, fyrir þeirri höfnun er skoðuð byggir hann talsvert á því að vísa í stærð landsvæðisins, segir engin fordæmi fyrir því að jafnstórt landsvæði á Íslandi hafi verið fært undir erlend yfirráð, eins og hann kýs að nefna það.

Nú er þessi stærð mjög afstæð og menn þurfa einhvern veginn að reyna að skilgreina þessa hluti. Það er líka annað sem menn þurfa að skilgreina og það eru hin ósnortnu víðerni. Nú eru 42% Íslands ósnortin víðerni samkvæmt lagalegri skilgreiningu. Sú skilgreining er á þann veg að svæði sé 25 ferkílómetrar, að ekkert manngert sé á því svæði, að 5 kílómetrar séu í næsta manngerða hlut og að menn geti upplifað náttúruna þar án þess að þar sé nokkuð manngert. Það eru ósnortin víðerni. Þegar þessi mælistika er sett á Ísland eru 42% Íslands ósnortin víðerni, um er að ræða alveg gríðarlega auðlind. Danmörk 0%, Þýskaland 0% o.s.frv. Þetta er algjör sérstaða í svona fallegu landi og þó með þróaðan infrastrúktúr, eins og það er kallað. Þetta eru gríðarleg verðmæti til lengri tíma litið og þetta verðum við að vernda.

Í ljósi náttúruverndarhagsmuna og hagsmuna okkar sem þjóðar, og ekki síst vegna ferðaþjónustunnar, hljótum við að þurfa að skilgreina hvað af þessu landi við viljum hafa í þjóðareigu. Stór hluti er nú þegar í þjóðareigu sem þjóðlenda, en önnur svæði eru í einkaeigu. Viljum við gera áætlun um að kaupa þau svæði upp þannig að þau komist í þjóðareigu og séu ekki í einkaeigu til að geta verndað þau, til að hafa meira vald yfir því hvað verður um þau svo að ekki sé byggt þar upp eitthvað sem við viljum kannski ekki hafa og mikill þrýstingur myndist í því sambandi?

Ég legg þessar spurningar fyrir ráðherrann svo að við lendum ekki í fleiri uppákomum eins og urðu þegar (Forseti hringir.) síðasti fjárfestir vildi fjárfesta hér á Íslandi.