140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ósnortin víðerni.

279. mál
[18:43]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég áttaði mig ekki á því þegar ég sá þessa fyrirspurn að þetta væri leið til að ræða Grímsstaði á Fjöllum. En það er sannarlega rétt, sem fram kemur í máli þingmannsins, að hér eru ákveðin prinsipp undir sem fjalla þarf um. Ég svara því í þeim dúr og vona að ég komist hér yfir svarið en lýk því annars í seinni ræðu.

Í náttúruverndarlögum er það ekki talin forsenda náttúruverndar að tryggja að land sé í eigu ríkisins eða þjóðarinnar enda eru mörg dæmi um hið gagnstæða. Fjölmörg hinna rúmlega 100 friðlýstu svæða á Íslandi eru þannig í einkaeign eða í eigu sveitarfélaga og nokkur svæði í nýjasta þjóðgarði okkar, Vatnajökulsþjóðgarði, eru í einkaeign. Í náttúruverndarlögum er það ekki skilyrði að friðlýst landsvæði sé í þjóðareign heldur er meginatriðið að tryggja að staðir eða náttúrufyrirbæri með hátt verndargildi eða sérstakt verndargildi hljóti viðeigandi verndun. Það útilokar þó alls ekki að ef ríkið þarf að eignast land eða landsvæði til að tryggja nauðsynlega náttúruvernd sé landið keypt eða hugsanlega tekið eignarnámi náist ekki samkomulag um slíkt við eigendur landsins. Til þess höfum við í sjálfu sér lagaheimildir.

Um friðlýsingu á ósnortnum víðernum samkvæmt náttúruverndarlögum fer eins og um aðra friðlýsingu náttúruminja að ákvörðun um friðlýsingu byggist á mati á nauðsyn friðlýsingarinnar, svo sem hvort sérstök ógn stafi af einhverjum kröftum að hinu ósnortna víðerni. Sé friðlýsing talin nauðsynleg og svæðið er ekki í ríkiseign er samkomulags leitað við eigendur. Kaup eða eignarnám koma því aðeins til álita að ekki sé hægt að tryggja friðlýsingu í slíku samráði, þ.e. við eigendur og þá oftast nær við sveitarfélagið að auki, þ.e. ef eigandinn er ekki beinlínis sveitarfélagið.

Hv. þingmaður spyr: Kemur til greina að gerð verði áætlun um kaup íslenska ríkisins á slíkum svæðum? Það hefur ekki komið til álita í umhverfisráðuneytinu að vinna áætlun um kaup ríkisins á ósnortnum víðernum. Það gæti sannast sagna orkað tvímælis að útbúa slíkan innkaupalista og ekkert sjálfgefið að það út af fyrir sig mundi þjóna hagsmunum náttúruverndar þegar til lengri tíma er litið. Ég vil samt ítreka þá skoðun að ég tel að alltaf geti komið til greina að kaupa land sem er ekki í þjóðareign og flokkast undir ósnotin víðerni samkvæmt náttúruverndarlögum ef það er nauðsynlegt og talið óhjákvæmilegt til að tryggja verndina, eins og vikið var að hér áðan.

Hv. þingmaður spyr hve stór í prósentum talið ósnortin víðerni séu í öðrum Evrópulöndum samkvæmt sömu skilgreiningu náttúruverndarlaga og dæmir 42% Íslands ónsortin víðerni, alls 31% án jökla. Hv. fyrirspyrjandi nefndi bæði Þýskaland og Danmörku sem dæmi um lönd sem eru manngerð orðin nánast, þ.e. hönd mannsins hefur nánast komið við hvern fermetra af þeim löndum eins og tíðast er í Evrópu þar sem er mikill landbúnaður og mikil nýting á landi. Árið 2009 vann Umhverfisstofnun mat á ósnortnum víðernum á Íslandi og það var gert í samræmi við niðurstöður starfshóps um hugtakið „ósnortin víðerni“, en stafrænn kortagrunnur Landmælinga Íslands var notaður við þá útreikninga og eftirfarandi þemu notuð til að meta áhrif mannsins á náttúruna: Mannvirki, þ.e. öll mannvirki nema frístundahús; samgöngur, vegir og slóðar; raflínur á landi og manngerð vötn.

Umhverfis þessi mannvirki var útbúið 5 km áhrifasvæði, utan um hvert og eitt mannvirki af þessu tagi, til þess að sjá hvað stæði eftir sem ósnortin svæði. Því næst var öllum svæðum sem voru minna en 25 ferkílómetrar að flatarmáli eytt út úr grunninum og þannig fékkst kort sem sýnir í raun og veru nægilega stór svæði til að teljast ósnortin víðerni. Það liggur ekki fyrir hvort telja eigi rústir sem mannvirki eða ekki, hvort það geti verið hluti af ósnortnu víðerni, og þess vegna voru teknar saman tvær tölur yfir ósnortin víðerni á Íslandi, þ.e. án rústa 36,6% en ósnortin víðerni byggð með rústum 32,8%. Þessir útreikningar Umhverfisstofnunar miðast við að heildarflatarmál Íslands að jöklum meðtöldum sé 103 þúsund ferkílómetrar.

Til samanburðar má nefna að í Noregi eru 11,7% lands enn talin ósnortin víðerni eins og þau eru skilgreind í þarlendum lögum um náttúruvernd samkvæmt útreikningum náttúruverndaryfirvalda í Noregi. Umhverfisstofnun hefur ekki nákvæmar upplýsingar um ósnortin víðerni í öðrum Evrópuríkjum en velta má vöngum um það eins og hv. fyrirspyrjandi gerði. En það má telja víst að lítið sé um slíkt í Evrópu samkvæmt þessari skilgreiningu vestan Rússlands nema á Íslandi og í norðanverðri Skandinavíu, þ.e. í Svíþjóð og Finnlandi auk Noregs.