140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ósnortin víðerni.

279. mál
[18:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Þessi umræða kristallast eiginlega í því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði hér áðan, það má segja að þetta séu tvö sjónarmið: Á að vera með stórar eignir hér sem útlendingar eiga eða ekki? Fyrir mér snýr þetta ekkert endilega að því en hins vegar var kínverski fjárfestirinn sem vildi kaupa hér gríðarlega stórt land, og öll sú umræða sem varð um það, undanfari þessarar fyrirspurnar. En fyrir mér snýst þetta um náttúruverndarhagsmuni og þessa auðlind til framtíðar, þ.e. ósnortin víðerni, óháð því hvort Íslendingar ætli að gera eitthvað eða útlendingar, algjörlega óháð því.

Ég veit að talsvert af friðlýstum svæðum eru einkaland og þekki það frá því að við opnuðum þjóðgarðinn Snæfellsjökul að ekki tókst að kaupa upp allar jarðir þar. Ráðuneytið lagði mjög mikið á sig við að reyna að kaupa upp allar jarðir til að hafa þetta sem mest í ríkiseigu, en það varð alla vega ein jörð eftir sem ekki tókst að kaupa. Hún er þarna inni í miðjum þjóðgarði og allt í lagi með það svo framarlega sem menn ná einhverjum sáttum í skipulagsmálum og ganga vel um o.s.frv.

Mér fannst þetta mjög áleitin spurning þegar kínverski fjárfestirinn kom og öll umræðan varð um þetta stóra svæði. Við getum lent í mörgum málum af því tagi, held ég, í framtíðinni og annaðhvort verður ríkið að kaupa upp það sem við teljum mjög brýnt að eiga, og halda þá utan um það í þjóðareigu, eða að skipulagsvaldið verður að vera það sterkt og það skynsamlega farið með svo að engin slys verði.

Í svæðisskipulagi miðhálendisins er gert ráð fyrir ákveðinni uppbyggingu í ferðaþjónustunni, gert er ráð fyrir uppbyggingu á jaðri miðhálendisins og svo á einstaka stöðum við aðalfjallvegi, ekki á öðrum stöðum. Við megum því ekki lenda í því að svo mikill þrýstingur verði frá einkaaðila, sem á land eins og hér um ræðir og vill gera eitthvað á því, að það fari ekki saman við það sem þjóðarhjartað segir að eigi að vernda.

Þess vegna er þessi fyrirspurn sprottin upp, annaðhvort þurfum við að kaupa þetta land (Forseti hringir.) eða að tryggja mjög sterkt, öflugt og skynsamlegt skipulagsvald.