140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ósnortin víðerni.

279. mál
[18:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir góða umræðu og gagnlega. Þetta er ekki alveg óskylt umræðu sem átti sér stað hér aðeins fyrr um myrkrið, þarna er um að ræða auðlind, sem eru víðernin, sem Ísland á umfram nágrannalönd okkar og umfram aðrar þjóðir í okkar álfu. Eins og oft er með það sem maður á mikið af þá áttar maður sig ekki á því hversu dýrmætt það er, en fyrir gesti okkar er það undur að upplifa víðerni og myrkur.

Mig langar að nefna tvö sjónarmið í þessari umræðu. Í fyrsta lagi það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom aðeins að, þessi spurning: Hvar liggja mörkin? Erum við kannski í þessari umræðu um Grímsstaði, svo að ég fari aðeins inn á það, komin að því að eitthvað inni í okkur sjálfum segir: Um svona stórt land gilda ekki hefðbundin sjónarmið um kaup og sölu á eignum? Einhvern veginn kom upp þessi tilfinning, kannski frekar tilfinning en rökstudd afstaða til að byrja með, og ég held að það hafi verið dálítið þvert á flokka. Fólk upplifði það á þann veg að það væri annars eðlis að kaupa eina sumarbústaðalóð eða hæð við Sóleyjargötu, eða hvar það er, en jörð af þessari stærð, að þar værum við komin að einhverjum mörkum. Ef við ætluðum að selja margar jarðir af þeirri stærð værum við einfaldlega komin með mjög stóran hluta af Íslandi í eigu erlendra aðila og þá er maður farinn að tala um prinsipp eins og sjálfsforræði þjóðar o.s.frv. Það er umræðuefni.

Hitt sem ég vildi nefna hér, frú forseti, er sú staðreynd sem mér finnst mikilvægt að við tökum með inn í dæmið, og við höfum kannski ekki hugsað mikið um á Íslandi, að land er auðlind. Ekki bara vatn eða jarðhiti eða orka eða landbúnaður eða hvað það er, (Forseti hringir.) heldur er landið sem slíkt auðlind og verður það í vaxandi mæli, sérstaklega eftir því sem meiri þörf verður fyrir ræktarland í heiminum.