140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

Náttúrufræðistofa Kópavogs.

327. mál
[18:58]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á mikilvægu starfi Náttúrufræðistofu Kópavogs. Áður en lengra er haldið vil ég leiðrétta ákveðna forsendu sem kom fram í spurningunni en hún var sú að nú væru einungis sex náttúrufræðistofur starfandi en þær eru sjö þannig að í raun og veru liggur fyrir vilyrði um stofnun þeirrar áttundu á vegum sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Þarna er um að ræða sem sé Stykkishólm fyrir Vesturland, Bolungarvík fyrir Vestfirði, Sauðárkrók fyrir Norðvesturland, Húsavík fyrir Norðausturland, Egilsstaði fyrir Austurland, Vestmannaeyjar fyrir Suðurland og svo Sandgerði fyrir Reykjanes. Miðað við landfræðilega dreifingu hefur alltaf þótt eðlilegt að náttúrustofu yrði komið á á vegum einhverra sveitarfélaga á Suðausturlandi, þá væntanlega sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps.

Það er einfaldlega ekki heimild á grundvelli laganna, af því að lögin gera bara ráð fyrir átta stofum, fyrir aðkomu ríkisins að Náttúrufræðistofu Kópavogs nema að draga til baka þau vilyrði sem hafa verið gefin. Það er í sjálfu sér ekki vilji til þess enda er hugur í mönnum í fyrrgreindum sveitarfélögum á Suðausturlandi til að koma á fót náttúrustofu og góðar forsendur fyrir rekstri slíkrar stofu sem nyti góðs af nálægðinni við rætur Vatnajökuls og auðvitað sambúðinni við Vatnajökulsþjóðgarð eins og þingmaðurinn vék að.

Spurningin er hins vegar góð og mikilvæg og vekur athygli á því starfi sem Náttúrufræðistofa Kópavogs sinnir, sem er ákaflega merkilegt og gott hvort sem litið er til rannsókna eða sýningarsalar. Starf þessarar stofu sýnir mikinn metnað starfsmanna hennar og Kópavogsbæjar, sem setti náttúrufræðistofuna á fót árið 1983 og hefur hún verið rekin af bæjarfélaginu síðan. Á stofunni hefur verið byggð upp mikil þekking, sérstaklega á sviði vatnalíffræði og vistfræði, og hafa starfsmenn stofunnar unnið merkt starf við rannsóknir á lífríki í ferskvatni á Íslandi. Náttúrustofan hefur verið í samvinnu við fjölmargar stofnanir á vegum ríkisins á þessu og öðrum sviðum og notið sértekna fyrir það, svo sem í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Samstarfið hefur verið gott og má sannarlega efla það. Sýningarhald Náttúrurfræðistofu Kópavogs er líka frábært framtak og til algjörrar fyrirmyndar og í raun og veru glæsilegt að sveitarfélag eins og Kópavogur skuli halda uppi slíkri sýningu og ætti auðvitað að vera metnaðarmál miklu fleiri sveitarfélaga og ríkisins sjálfs að halda uppi metnaðarfullu sýningarhaldi að því er varðar náttúruvísindi.

Um gildi fræðslu og safnareksturs um náttúrufræði á Íslandi þurfum við ekkert að fjölyrða svo sem, við byggjum afkomu okkar öðrum þjóðum fremur á gæðum náttúrunnar og hingað streyma ferðamenn í miklum og vaxandi mæli til að sjá og kynnast sérstæðri náttúru landsins. Meira að segja er sérstök lítil gestastofa undir Eyjafjöllum sem bóndinn á Þorvaldseyri hefur komið upp einn og sér og tekur þar á móti gríðarlegum fjölda gesta vegna þess að það er mikil eftirspurn eftir upplýsingum um náttúrufar á Íslandi. Ráðuneytinu er vel kunnugt um störf Náttúrufræðistofu Kópavogs, við höfum átt í góðum samskiptum við þá sem þar halda um stjórnvölinn, og gildi þess fyrir íslensk náttúruvísindi og rannsóknir.

Það er líklegt að rannsóknir og vöktun á vegum hins opinbera á sviði vatnavistfræði muni eflast á komandi árum vegna alþjóðlegra skuldbindinga og þar hlýtur auðvitað að verða horft til þeirra stofnana þar sem þekking og reynsla er fyrir hendi og þar sem hún er mest sem er þá meðal annars á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Þar gildir hins vegar eins og í öðrum málum að fara þarf eftir lögum og fjárheimildum sem hv. fyrirspyrjandi þekkir náttúrlega eins vel og sú sem hér stendur. Lögin sem vísað er til í fyrirspurninni rúma í raun ekki heimild til að gera slíkan samning um rekstur Náttúrurfræðistofu Kópavogs eins og ég hef nefnt.

Ég ítreka þakkir til fyrirspyrjanda fyrir að vekja með þessum hætti máls og athygli á starfi Náttúrufræðistofunnar. Ég mun sjálf vera vakandi varðandi hugsanlega aðkomu stofunnar að verkefnum á vegum ráðuneytisins og stofnana þess í framtíðinni þar sem líklegt er að hún geti orðið að liði vegna sérstöðu sinnar.