140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

Náttúrufræðistofa Kópavogs.

327. mál
[19:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og líka góðan hug og hlýjan í garð Náttúrufræðistofu Kópavogs. Ég tel það mjög mikilvægt, en engu að síður er veruleikinn sá að ekki er ætlunin að gera samning við Náttúrufræðistofu Kópavogs. Mér fannst ráðherra einmitt draga mjög vel fram sérþekkingu sem hefur byggst upp, sérstaklega á sviði vatnavistfræðinnar, hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir utan réttilega sýningarhaldsins sem heldur uppi sýningum á náttúrugripum hér á suðvesturhorninu þar sem 70% landsmanna búa.

Það er hins vegar önnur umræða sem við höfum tekið meðal annars við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, varðandi Náttúruminjasafnið, og ég ætla ekki að leggja það á þann ráðherra einan og sér að bera ábyrgð á að koma því upp. Ég held að við verðum að fara í endurnýjun þeirrar umræðu og hugsa um hvort við getum nýtt fjármagnið betur með því að sameina hugsanlega menningarstofnanir á sviði safnamála, bara til að koma þessu af stað og vera með öflugt náttúrufræðisafn. Það er önnur saga og ég held að það sé þverpólitísk samstaða um að efla sýningarhald á sviði náttúrugripa. Hvernig það verður gert verður að vera innan ramma hverju sinni.

Mér finnst við þingmenn Suðvesturkjördæmis, og hæstv. forseti veit það vel, enn og aftur falla milli skips og bryggju eins og aðrar stofnanir í Suðvesturkjördæmi. Við erum ekki á landsbyggðinni og finnum þar af leiðandi ekki þennan velvilja og stuðning, hvort sem það er af hálfu fjárlaganefndar eða einhverra annarra innan þingsins, og við erum ekki í borginni og erum því ekki með höfuðborgarstarfsemi. Einhvern veginn er ekki sami skilningur sýndur þeim verkefnum sem eru innt af hendi á suðvesturhorninu, sem sagt í Suðvesturkjördæmi, og annars staðar.

Það er búið að sýna fram á það fræðilega en ekki síður út frá ýmsum öðrum sjónarmiðum að þarna er mikilvæg starfsemi sem ríkið þarf líka að koma að fyrst ríkið kemur að náttúrufræðistofum víðs vegar um landið. (Forseti hringir.) Það er alveg til fyrirmyndar og allt það, en það ekki verið að gæta jafnræðis gagnvart Náttúrufræðistofu Kópavogs þegar bornar eru saman náttúrufræðistofur (Forseti hringir.) víðs vegar um landið. Ég þakka ráðherra engu að síður fyrir skilninginn.